Hér má lesa rugl eftir mig

08 október 2007

Sennilega síðasta blogg fyrir próf

Góðan dag.

Nú eru ritgerðirnar búnar og prófin næst á dagskrá. Mér fannst því rétt að skrifa hér nokkrar línur svo færi að ég ætti ekki afturkvæmt úr einhverju prófanna.

Ég gleymdi eiginlega að segja frá einni gríðarlega skemmtilegri sögu í síðustu færslu. Sögunni af því þegar ég týndi bifreið. Hér kemur hún:

Um daginn hugðist ég fara í Borgarnes sem er svo sem ekki í frásögurfærandi nema hvað ég fór á galantinum hennar Siggu systur. Galant þessi er sjálfskiptur og er ég ekki sérlega vön að aka þannig tækjum.
Ég var eitthvað að erinda og fór meðal annars í Húsasmiðjuna í Borgarnesi. Lagði fyrir utan og skaust inn og keypti það sem mig vanhagaði um. Ætlaði svo að skvera mér út í bíl en þá var bara einhver mannfíla að leggja í stæðið mitt og enginn galant.... Litaðist um og var þá ekki helvítið búið að renna niður brekkuna fyrir framan Húsasmiðjuna og staðnæmast í kanti þjóðvegar 1. Mér láðist að setja í PARK, falleg stund og notaleg. Ég fór og sótti tækið, sem engann skaða hlaut þrátt fyrir allt, og hélt áfram að reka erindi mín en setti í park á næsta bílastæði.

Skemmtilegt þegar eitthvað svona hendir mann....

En að öðru.
Síðasta fimmtudag var haldinn keppni í leðjubolta hér á Hvanneyri. Drullan var allsráðandi og stemmningin gífurleg.
Um kvöldið var svo grill úti í fjárhúsum þar sem ég tók þann pólinn í hæðina að hrynja í það. Það tókst með ágætum enda var ég steindauð heima í rúmi klukkan 00:30, búin að æla á 3 stöðum, gleyma gleraugunum á öðrum bæjum og týna treflinum mínum. Afbragð.
Daginn eftir heimti ég gleraugun og trefilinn og fór svo í próf í kynbótadómum hrossa frá 13:00-16:30, hressleikinn var allsráðandi.

Nú til að segja eitthvað skemmtilegt sem ég skammast mín ekki neitt fyrir þá keypti ég folald á laugardaginn. Hesturinn sem ég keypti síðast er nefnilega orðinn 16 vetra og því hyggilegt að finna eitthvað sem gæti komið í hans stað með tíð og tíma. Ég minntist á þetta við Birtu í haust og hún talaði við föður sinn sem síðan bauð mér brúnblesótt folald. Ég fór sem sagt á laugardaginn og skoðaði gripinn og keypti. Vonandi að þessi kaup séu jafn góð og þau sem ég gerði fyrir 16 árum...Tilraunir til að festa nýkeyptan reiðskjótann á filmu fóru fyrir ofan garð og neðan og því brá ég á það ráð að nýta paint til að koma útliti hans til skila.


Jæja nú ætla ég að fara út að viðra mig, svona áður en ég fer að læra...

Orð dagsins er: Gandur
Orðið þýðir: 1. Reiðskjóti, úlfur, háskaleg ófreskja. 2. göldrum magnaður reiðskjóti galdravættar, stafur - spástafur. 3. broddfjöður í skeifu. 4. bersvæði, berangur. Þeyta gandinn getur svo þýtt að: 1. fara hratt og víða. 2. tala ótt og mikið.
Dæmi: Aldís þeytir gandinn í gegnum símtækið. Kjölur er óttalegur gandur.
Til gamans má geta að ég hef nefnt nýkeypt folaldið Gand.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim