Hér má lesa rugl eftir mig

17 desember 2009

Ár og dagar líða...

Góðan dag

Enn líður á desember - undarlegt, hvern hefði grunað að það myndi gerast?

Jólundirbúningur hefur aðeins gert vart við sig á heimilinu, fór til að mynda í hina ljótu Reykjavík á dögunum. Tilgangur ferðarinnar var að vísu ekki ,,jólaferð" upphaflega heldur tannlæknisferð - hafði nefnilega ekki farið til tannlæknis í einhver 4 ár - en vegna tímasetningarinnar (11. des.) þótti kjörið að nota ferðina í jólavesenið líka.
Ferðin var ágæt, tók Helgu að sjálfsögðu með enda förum við mun oftar saman í leiðangra en við Mads. Byrjaði á því að skila Helgu á Keldnaholt en fór sjálf í kaffi til Völu vinkonu - sem er ákveðinn árangur því ég hef margoft ætlað að heimsækja hana en ekki tekist fyrr en nú.
Svo kom að tannlækninum en hann er sérlega óheppilega staðsettur fyrir sveitalubba - á Rauðarárstíg - ótrúlega vel gekk að komast þangað. Tannlæknaferðin gekk eins og í sögu engar holur og veskið ekki galtómt að heimsókn lokinni.
Síðan tók við einn staður af öðrum, Kringlan, RL-búðin, Elko, Garðabær og Hafnafjörður og ég veit ekki hvað og hvað og heim vorum við komnar 13 tímum síðar eða svo klukkan 22:30.

En fleira hefur svo verið dundað, bakaði flatkökur um daginn og svo undum við Birta okkur í laufabrauðsgerð í gær - með frábærum árangri eins og við var að búast. Vegna kreppunnar hef ég svo verið að föndra jólagjafir eins og maður gerði í gamla daga og er, eins og þá, þokkalega ánægð með árangurinn og býst við miklum og fallegum þökkum fyrir. Já! og svo voru skrifuð jólakort, sögulega mörg, meira að segja fleiri en 10, hugsa sér.
Laufabrauðið okkar Birtu er eins og sést ekki eins og hjá fínum Þingeyskum húsmæðrum

Síðan er kennslan þessa haustönn búin, var með próf á mánudaginn sem allir nemendurnir náðu - sem var eins gott fyrir þau því það er afar leiðinlegt að gera endurtektarpróf og sitja yfir þeim. Annars eru allir að verða búnir í prófum, ég held að flestir fari heim í dag og þá hefst líklega þessi skemmtilega Hvanneyrar-jólastemming; ekki köttur á kreiki og ekki rassgat að gera... þannig var það allavega í fyrra.

Annars eru það helstu fréttir og raunar helsti vandi þessara síðustu daga að hænurnar hans Mads eru farnar að verpa eins og hríðskotabyssur. Eggin hrúgast upp og ég hef hvorki hugmyndaflug né nennu til að baka úr þeim öllu auk þess sem það er ekki sérlega hollt að troða í sig sætabrauði alla daga.

En já, þá er þetta gott í bili.

Orð dagsins er; þökta (so.)
Orðið þýðir; blakta daflega, vera um það bil að slokkna, smá lögg.
Dæmi; þvotturinn þökti á snúrunni. Það þökti á gamla sjónvarpinu í litla stund áður en það dó endanlega. Það þöktir á flöskunni.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim