Hér má lesa rugl eftir mig

31 desember 2009

Síðasti sjéns...

...til að standa við áramótaheitið 2009

Jæja 31. desember mættur og enn ekki allt farið til fjandans á Íslandi. Kannski að árið 2010 verði þess heiðurs aðnjótandi að verða; ,,árið sem allt fór virkilega til fjandans á Íslandi" - þó segja kannski sumir að það ár sé þegar liðið, hafi verið árið 2008.

En tökum upp léttara hjal. Jólin eru enn ekki búin þó hátindur þeirra sé vissulega liðinn. Allt fór jólastandið ágætlega fram hjá okkur Mads. Maturinn var sjúklega góður, innihald pakkana frábærlega flott og veðrið með ágætasta móti.
Mads var að vinna núna fram til 27 og gerði ég mér það til dundurs að skreppa með honum í fjósiða - bara svona til að gera eitthvað. Annars hefur tíminn að mestu farið í að gera fátt og lítið, listsköpun, gögnguferðir, bíltúra og svo hefur búskapnum (hænum, kanínum, öndum, hundum og Helgu þegar hún er heima) verið sinnt.

Það bar til (loksins-loksins) um þessar mundir að bláberjavínið varð tilbúið til átöppunar. Vínið er hreint ekki alslæmt og má jafnvel ætla að það verði hæft til drykkjar einhverntíma. Þá er bara að bíða þess að krækiberjavínið gerjist til fulls og þá ætti berjavínsárgangur ´09 í brugghúsinu að vera tilbúinn.

Ég ætla til tilbreytingar ekki að setja myndir hér inn af þessum heimsviðburði (jólunum hjá mér og fleiru) heldur á myndasíðuna - tengill hér til hliðar.

Nú svo er náttúrulega gamlárskvöld í uppsiglingu og er stefnan að þessu sinni sett á að éta ótæpilega af villibráð og svínahamborgarhrygg ásamt meðlæti. Sennilega verður svo horft á annaála, áramótaskaup og að sjálfsögðu tappadansinn ómissandi.

Orð dagsins; dröslur (no, kvk)
Orðið þýðir; gamlar fataslitrur, bókaskræður, eitthvað fánýtt.
Dæmi; upp úr jólapökkunum kom ógrynni af dröslum.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim