Hér má lesa rugl eftir mig

11 mars 2010

Af gærum og gæjum

Jæja er ekki tímabært að setja hér inn nýja færslu? Ég held það.

Það hefur svo sem ekkert sérstakt átt sér stað en það er nú allt í lagi. Ég veit reyndar, vegna þessa tíðindaleysis, ekkert hvað ég ætti helst að skrifa... kannski get ég að vísu byrjað á því að greina frá því að um helgina stefnir hópur fólks á að fara í búfjárræktarferð í Skagafjörðinn. Það mun vera sögulegur fjöldi sem er að fara að þessu sinni - rúmlega 70 manns. Dagskráin er svakaleg og eflaust mun skríllinn skemmta sér ljómandi vel. Nú annað nánast jafn spennandi sem er á dagskrá þessarar helgar er það að Mads ætlar að sækja sér fleiri hænur og að því ógleymdu að Skvísa ætlar að fá sér ormahreinsun - íha.

Sit núna fyrir framan sjónvarpið með Helgu mongó að horfa á þá frómu þáttaröð ,,hvernig ég kynntist móður þinni" (Helga segist ekki vera mongó - hún sé bara að klóra sér). Þessi þáttaröð er annars dáldið skemmtileg, tekur fyrir allt þetta klassíska, ást vesen, grín og svona... Nú svo tekur við enn meira af áhugaverðu sjónvarpsefni - Elli Steinn og svo náttúrulega píurnar á Bláregnsslóð.... úff áhugaverða líf.

Annars fór ég að heimsækja strák um dagin. Hann var búinn að ræða það við mig að einhverntíma í haust að ég myndi taka fyrir hann hross og ákvað ég að skreppa og kíkja á gripinn. Strákurinn er hinn margfrægi Dúddi í Holti eða Guðmundur í Arnþórsholti eins og enginn þekkir hann. Truntan leit bærilega út og stendur til að skottast eftir henni einhverntíma við tækifæri. Talandi um truntur þá er ég líka að spekúlera í að fá hingað gamla klárinn minn um þarnæstu helgi, svona til að halda honum og mér svolítið við.

Hér sést Dúddi í heyskap síðastliðið sumar. Myndin er af vef Skessuhorns.

Jæja, tími á orð dagsins

orð dagsins; hábrókast (so.)
orðið þýðir; vera drembinn, monta sig
Dæmi; Dóri hábrókaðist yfir árangri sínum í prófunum.

3 Ummæli:

Anonymous Gunnfríður sagði...

Fyrst maður getur hábrókast þá getur maður, væntanlega, líka verið hábrók. Eða hvað?

23:06

 
Blogger Mæja sagði...

Eflaust... en það verður að varast að rugla þessu saman við það sem unga fólkið kallar að vera brókaður - þe. girða sig hátt.

16:07

 
Anonymous Sigga systir sagði...

hvað átti það að þýða að hundskast hvorki með í Hreðjarsferð né búfjárræktarferð?

23:48

 

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim