Hér má lesa rugl eftir mig

04 maí 2010

Grasið grænkar, gleði eykst

Góðan dag og gleðilegt sumar

Ég hef nú verið heldur löt að skrifa hér undanfarið enda búin að hafa nóg annað að gera - aldrei þessu vant. Vinnan (gagnavinnsluverkefni eitt lítið) hefur tekið nokkuð af tímanum, hrossin tvö nokkra tíma en flutningar og vesen þeim tengt gífurlega mikinn tíma. Alltaf skal ég gleyma því milli þess sem ég flyt hvað það er óskaplega mikið vesen. Pakka niður þeim ósköpum af drasli sem maður sankar að sér á fáránlega skömmum tíma, flytja öll ósköpin landshorna á milli með tilheyrandi kostnaði og veseni, þrífa eftir sig og þá er eftir að koma öllu helvítis ruslinu fyrir á nýja staðnum. Þetta er nú reyndar að hafast hjá okkur, lítið eftir á Hvanneyri nema búskapurinn - hænur og hross.
Kjúklingar Hr. Jörgensen

Já talandi um hross þá eignaðist ég nýtt þannig á dögunum. Mads bauðst að kaupa um það bil 10. vetra meri af félaga sínum sr. Flóka sem hann gerði og gaf mér í tilefni afmælis míns. Merina sótti ég um daginn suður í Land hérna á Hvanneyri þar sem hún hefur greinilega átt góða daga - hún er allavega fullkomlega samkeppnishæf við merarbollurnar heima í Arnarholti hvað varðar spik á síðu og lend. Tamningatryppið hún Ljóta-Blesa er öll að koma til. Alveg hætt að prjóna af stað og kemur sér þokkalega áfram þó ekki sé hún sérlega viljug. Setefnan er sett á að skila henni til eiganda síns í dag eða á morgun.

Mads fór að vitja ættingja sinna í veldi Möggu drottingar í síðustu viku en kom heim í fyrra dag. Það var allt hið besta mál nema hvað fólk var alltaf eitthvað að þvarga í mér hvaða erindi hann hefði haft í ferðinni - en það gat ég ómögulega munað. Ég var því sökuð um sinnuleysi gagnvart ástmanni mínum og annað í þeim dúr. Það kom svo upp úr kafinu þegar Mads var komin heim aftur að hann hafði bara hreint ekkert erindi út annað en það að heimsækja fólkið svo ekki skrítið að ég myndi ekki hvað hann ætlaði að gera.

Arnarholt séð í gegnum gamlan öxul

Núna sit ég yfir prófi í Gamla-Skóla. Heilir fjórir nemendur þreyta prófið og dugar því ekki minna en að bæði ég og Edda Þorvalds sitjum yfir þeim.

Sauðburður er víða hafinn. Ekki heima að vísu en það fer að líða að því með tilheyrandi nóttum í fjárhúsi og öðrum hressandi sveitastörfum.

Þetta lamb er, held ég alveg örugglega, núna gemlingur

Orð dagsins; júfferta
orðið þýðir; trjábolur eða gildur viðardrumbur. Gildvaxinn fyrirferðarmikill kvenmaður.
Dæmi; Júffertur báru uppi þakið. Þórunn Edda er nú engin júfferta.

7 Ummæli:

Anonymous Gunnfríður sagði...

Veiiii Ég var farin að óttast að þú værir hætt að blogga. Ég meira að segja kannast við orð dagsins í fyrsta skipti, enda hef ég oft og víða séð júffertur :-)

10:41

 
Blogger Mæja sagði...

Ekki er ég nú af baki dottin með bloggið Gunnfríður mín - mig hefur bara skort tíma.

En júffertur eru allt í kringum okkur, það er staðreynd.

09:55

 
Anonymous Þorbjörg Helga sagði...

Afar skemmtileg lesing hjá þér María eins og endranær. Ég held að ég fari að falla undir að vera júfferta, allavegna stefnir í það... en vonandi að það lagist með haustinu, að allt gangi til baka :)

kv Þorbjörg

15:24

 
Blogger Maria Th sagði...

..á ég að trúa því að ein innsláttarvilla leynist í vefriti þínu nafna góð? Svona er maður sorglegur að þykja það til tíðinda ;)
Góðar stundir framundan, svefnlitlar og feykihressandi bú annir! Njótið

11:36

 
Blogger Maria Th sagði...

Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

11:36

 
Blogger Maria Th sagði...

Jæja Mæja..því var að mér pískrað fyrr í sumar að félagar mínir úr Brák og fjölskylda + félagar í Kili hefðu ónáðað þig við störf þín sem landvarða! Þakka kærlega fyrir kveðjurnar..hebbði verið feykilega gaman að hitta á þig í Gíslaskála en ég er letingi :þ

en mig verkjar enn í höfuðleðrið af hlátri eftir eina góða söguna af samskiptum félaga minna úr Kili við þig..segi þér af því við tækifæri! Þú vannst! ;)

06:44

 
Blogger Mæja sagði...

Já það var nú alltaf gaman að fá björgunarsveitirnar í eftirlit - braut upp fábreitt líf mitt.

21:16

 

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim