Aðventan alveg að detta inn
Gott kvöld
Það er ógurlega langt síðan ég skrifaði hér inn síðast. Ég gæti eflaust sagt frá allskyns sem hefur komið fyrir mig síðan síðast - t.a.m. öllum þeim spennandi verkefnum sem ég vann í sumar eða kynnum mínum af kúm núna í haust. Ég er samt að hugsa um að sleppa þessu öllu og segja frekar frá högum mínum. Ég er svo sem ekki viss um að það langi nokkrun mann sérstaklega að vita þetta en mér er nokk sama.
Sem sagt. Ég bý í Reykholti í Biskupstungum með ástmanni mínum, honum Mads. Við búum í ekkert voða gömlu parhúsi sem er frekar ljótt og hefði mátt vanda betur (ekki járn á þaki heldur tjörupappi, ómáluð timburklæðning, illa flísalagt og fleira skemmtilegt). EN þægileg leiga og staður að búa á.
Bæði vinnum við hjúin á sveitabæjum við að mjólka kýr og fleira. Mads vinnur í Bræðratungu, stórbýlinu sem kemur við sögu í Íslandsklukkunni. Þess má geta að húsbóndinn þar í dag er ekki eins drykkfelldur og Magnús bóndi í sögunni. Eins og dönskum fjósameistara sæmir vinnur hann með flókna tækni, mjaltaróbót af DeLaval-gerð og kýrnar eru rúmlega 70. Einnig eru hross og sauðfé á bænum en Mads sinnir þeim peningi minna.
Ég vinn í Gýgjarhólskoti sem hvergi hefur komið við sögu í bók svo ég viti. Þar er mjaltabás og rúmlega 40 kýr og svona 350 kindur. Þessa dagana er litlu öðru að sinna en fjósverkum og heygjöf sauðfjár (sem afi sinnir alfarið). Þar sem ég nenni ekki að vakna ógeðslega snemma (morgunmjaltir) til að keyra í vinnuna þá er ég þar dag og nótt virka daga en fer heim um helgar.
Um helgar gerum við fátt, Mads fer að vísu alltaf aðeins í vinnuna til að sinna kúnum en er heima mestan part dagsins. Stundum er þó eitthvað sem þarf að gera heima í Arnarholti eða einhver sem þarf að heimsækja eins og gengur.
Þar sem við höfum bæði áhuga á búskap eigum við dálítið af búfé. Mads á heilmarga fugla af nokkrum sortum og fáeinar feldkanínur sem hann heldur í Bræðratungu. Hann á hænur, íslenskar og nokkrar aðrar sortir, endur, gæsir og dverghænur. Hann langar í grís en veturinn er ekki besti tíminn til að vera með smágrís. Við eigum nokkra hesta eða ég á 4, Mads á einn. Svo eru einar 5 kindur í okkar nafni í Arnarholti. Ekki má gleyma Krumma, aðal félaga Mads, sem er hundur af Boxertegund.
Íslenskar hænur, að vísu gömul mynd þessi hani (Dóri) er t.d. dauður

Eflaust gæti ég sagt fleira, t.d. hvað við erum yfirleitt með í matinn og svona en því nenni ég ekki. Læt þetta duga í bili.
Orð dagsins; tussi
Orðið þýðir; smápoki eða tuddakálfur.
Dæmi; varningurinn kom í tussa úr plasti. Á dögunum bar 318 tussa.
4 Ummæli:
Tussi er ansi gott orð.
Svo finnst mér að við eigum að hittast öll fjögur einhverja helgina og éta eitthvað gott og vera sniðug saman!
Við Hilmar erum yfirleitt heima um helgar líka ;)
18:38
Ég trúi bara ekki að hann Dóri sé dauður. Átuð þið hann?
18:42
Já Steinunn það má athuga það eitthvað.
Gunnfríður; við átum hann, var gerður úr honum pottréttur ef ég man rétt.
21:06
Á ég að trúa því að ég eigi enga nöfnu í bústofninum hans Mads???
Spesía er flott!
11:05
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim