Hér má lesa rugl eftir mig

05 febrúar 2011

Farsótt

Þar sem það virðist vera að ganga að blogga, þá get ég alls ekki sleppt því.

Ég var að velta fyrir mér um daginn, er til stofnun sem ekki er leiðinleg? Ég hef hugsað þetta fram og til baka og man hreinlega ekki eftir neinni stofnun sem ekki getur talist leiðinleg. Matvælastofnun, Skipulagsstofnun, Árnastofnun, Námsgagnastofnun.... Magnað.

Jájá og seisei... Það er nú ekki frá mörgu að segja, lífið gengur sinn vana gang sem er á þessum árstíma hálfgerður hægagangur. Lítið um að vera og fátt sem ber til tíðinda. Reyndar er ég nú eins og ýmsir aðrir búin að taka hross á hús og stytta þau mér stundir milli mála. Ég get að vísu ekki boðið fákum mínum upp á jafn glæsileg og nýsmíðuð húsakynni og þær systur í Víðidalstungu en það verður bara að hafa það.

Aldrei slíku vant er snjór. Þetta er nú eiginlega fyrsti snjórinn sem ég sé í vetur í einhverju magni. Hingað til hefur þykkt snjóalaga hlaupið á nokkrum sentimetrum en nú er snjórinn líklega svona 30 cm djúpur - sem sagt; fimbulvetur og harðindi. Ég veit ekki alveg hvernig ég tekst á við þetta ástand, maður er orðinn svo góðu vanur. Auðvitað er best að sitja inni og bíða vors en þar sem það er ekki von á vori alveg á næstunni er líklegt að það gangi illa upp - svona varðandi vinnu og þannig. Líklegast verð ég bara að setja í ,,hörkutólagírinn" og láta mig hafa þetta.

Ég var að lesa bók um daginn sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að mér fannst hún frekar leiðinleg - eða svona pirrandi. Það er sjaldgæft að ég nenni að lesa leiðinlegar bækur frá upphafi til enda en ég lét mig hafa það núna. Ástæðan fyrir því að ég gafst ekki upp var sú að ég trúði því allt til loka bókarinnar að hún ætti eftir að skána. En það gerðist ekki. Bókin þótti mér pirrandi vegna þess að mér fannst aðalpersónan leiðinleg, frek og sjálfselsk kerlingarbeygla. Ég sem sagt trúði því að kerlingaráklan myndi láta af þessum löstum einhverntíman undir lok bókarinnar og sagan þannig fá farsælan endi. En ekki fór það svo, endirinn undirstrikaði raunar bara hversu óborganlega óþolandi leiðinleg aðalpersónan var - að mínu mati allavega. Þetta fékk mig svo til að hugsa hvort það hafi verið tilgangur höfundar að hafa persónuna svona leiðinlega eða hvort að höfundinum þyki ekkert athugavert við að fólk sé eins og þessi aðalpersóna... Vonandi var það vísvitandi gert að hafa persónuna leiðinlega. Fyrir forvitna var þetta bókin Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur.

Þegar ég hugsa út í þetta er þetta náttúrulega aðal plottið í bókinni - að hafa kerlinguna leiðinlega út í gegn og þá í rauninni það sem gerir bókina frekar góða - þó maður fatti það ekki fyrr en maður er búinn að hafa það af að lesa hana alla... Magnað

Jæja gott í bili.

Orð dagsins: fannaket
Orðið þýðir: kjöt af sauðfé sem hefur fennt eða króknað
Dæmi: Boðið var upp á fannaket af villfé á þorrablótinu

4 Ummæli:

Anonymous Sigga systir sagði...

Þú getur náttúrulega líka flutt í Víðidalinn og fengið leigða stíu undir fákana þína í sjúklega flotta og nýsmíðaða hesthúsinu :)

14:06

 
Anonymous Gunnfríður sagði...

Ég ætti kannski að reyna aftur við Madam Bovary og Góða dátan Sveik. Gafst upp á báðum þar sem aðalpersónurnar voru óþolandi (heimskar aðallega). Hvernig er það annars á ekki að fara að kíkja neitt í Borgarfjörðinn, nú eða svo væri kannski ráð fyrir ykkur Mads að skella ykkur á árshátíð SUB þá gætum við gantast svolítið saman :-)

15:56

 
Blogger Mæja sagði...

Gaman, ég gafst einmitt upp á Madam Bowary líka en Sveik komst ég í gegnum í annarri tilraun. Já árshátíð SUB... sé til. Annars er ég á leið í Borgarfjörð síðustu helgi í Þorra

21:19

 
Anonymous hróðný sagði...

æi þú ert snillingur mæja!

22:42

 

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim