Hér má lesa rugl eftir mig

04 apríl 2007

Fyrir páska

Sæl veriði

Djöfull líður tíminn hratt... það er ekki nema smá stund síðan mars var rétt byrjaður og nú er apríl kominn. Ég er helvíti ánægð með að hann sé mættu blessaður apríllinn, styttist í vorið, sumarið og alla þá gleði sem því fylgir.

Ekki hefur neitt umtalsvert á daga mína drifið síðan síðast en helst ber að nefna að við Mads skelltum okkur í borg óttans á laugardaginn var. Þar skoðuðum við í helstu verslannir s.s. IKEA (sem er óskaplega stór búð) og Rúmfatalagerinn auk Bónuss og Hagkaupa. Við höfðum svo mælt okkur mót við vinkonur mínar úr ML þær Valgerði og Bergþóru og ástmenn þeirra Kristinn og Birki. Við hittumst á ágætum veitingastað í Smáralindinni, átum á okkur göt og ræddum mikilvæg málefni s.s. hvernig páskaegg ætti nú helst að versla þetta árið. Mikil krísa í gangi í þeim efnum.

Vala og Bergþóra eru afar duglegar að borða

Eftir óhóflega neyslu matar ultum við heim til Bergþóru og Kristins og góndum á þá merkis ræmu Hostel en hún þótti að sumra mati ákflega ógeðsleg. Seint og síðar meir renndum við heim á Hvanneyri en komum þar að læstum dyrunum. Ekki höfðum við neina lykla að húsinu meðferðis svo við brugðum á það ráð að guða á glugga Siggu systur. Hún rumskaði eftir nokkur öflug bönk og tuldraði að hún skildi koma (allavega heyrðist okkur það). En hún kom ekkert svo ég hringdi í hana. Hún skammaði mig um stund fyrir að hafa ekki lykla og kom svo til dyra og sýndi ekki af sér neina kæti – undarlegt.

Sigga systir glöð í bragði enda ekki ný vöknuð

Annars hefur bara verið frekar rólegt hér, skóli, hesthús og leti eins og gengur. Reyndar var þrekvirki unnið á mánudaginn, tryppið hennar ömmu var járnað. Ég fékk Helgu Maríu í lið með mér til að vinna verkið og tókst það á endanum þrátt fyrir að bæði tryppið og Helga María hafi verið ansi nærri því á köflum að missa stjórn á sér.

Tryppið hennar ömmu, Glóa, sýnir af sér kæti í hesthúsinu

Stefnan er svo sett á að fara heim í Arnarholt í kvöld. Páskunum á nefnilega að eyða í að sinna rollunum. Þær þarf að sprauta, brennimerkja og vigta.


Gleðilega páska


Orð dagsins: Vamla
Orðið þýðir: 1. að skreiðast eða þvælast og 2. að umla eða tauta.
Dæmi: Margur hefur vamlað heim af Kollubar við illan leik. Silja vamlar um hvaðeina.