Hér má lesa rugl eftir mig

15 október 2008

Haust

Jæja það er komin meira en nógur tími síðan hér hefiði átt að skrifa eitthvað síðast. Ég ætla ekki að vera með neinar afsakanir og vinda mér bara beint í að segja frá liðnum atburðum og auðvitað barma mér yfir efnahagsástandinu.

Bíðum nú við. Síðast þegar ég skrifaði hér áttum við Helga eftir að fara með hrossin mín heim og allt það. Ferðin með hrossin gekk ljómandi vel, allar tegundir veðurs voru í boði og ýmislegt átti sér stað á leiðinni. Fyrsta daginn fengum við ljúfan rigningarsudda upp Lundarreykjadalinn og fengum að auki samreiðarmenn frá Gullberastöðum. Annan daginn fengum við enga samreiðarmenn enda var aftaka skituskítaveður, rok og rigning í fangið. Leiðin lá í Brunna en þar er skáli sá er leitarmenn Lunddælinga liggja í fyrir smalamennskur. Þangað komumst við og var það mikil hetjudáð. Tók þá við ferðin yfir Uxahryggi og var þann daginn ljómandi veður. Nokkur óvissa var um staðsetningu á tímabili en úr því rættist og komumst við á leiðarenda seinnipart dags. Þann dag þurfti að járna einn fót og Helga glataði nýkeyptri tóbakssprautu sinni. Síðasti dagurinn bauð upp á glampandi sól og engin vandamál. Þannig var nú það og leitt að segja frá að ég tók líklega enga mynd í þessu ferðalagi.

Svo var haldið á fjall þar sem allt fór tiltölulega vel fram að þessu sinni.

Allt of snemma hófst svo að sjálfsögðu skólinn. Óheyrilega spennandi áfangar í aðferðafræði og heimspeki hafa þó vissulega létt lundina með spennandi vekefnum og líflegum umræðum. Í asnaskap gekkst inn á að kenna bændadeild svolítið - það er nokkuð sem þarf tíma til að venjast en er þó jafnframt fræðandi og skemmtilegt á köflum auk þess sem það ætti að gefa eitthvað af sér peningalega.

Í fyrsta sinn lá leið mín í Skagfirskar stóðréttir. Eftir langa ökuferð var loks lent á Sauðarkróki og litið á reiðhallarsýningu í Svaðastaðahöllinni - var það fremur tilkomulítið að mínu áliti. Öllu tilkomumeiri var sú upplifun að koma inn í hin víðfræga Ömmubæ á Skörðugili og mun það mér seint úr minni líða.

Dísa, Helga og Birta hreiðra um sig við eldhúsborðið í ömmubæ

Eftir nótt í ömmubæ rann upp réttadagurinn og var að sjálfsögðu haldið að Laufskálum til að taka út réttastörfin. Margt var þar manna og ekki allir frýnilegir en það er náttúrulega eins og gengur.

Eyþór, Valdi frá Skarði og óþekktur við réttavegg

Kalli og Jóhanna í Þjórsártúni ásamt Emil á Grafarbakka

Björn bóndi í Útlíð lét sig ekki vanta enda aðalgæinn hvar sem hann fer

Eftir réttirnar ætlaði hópurinn (ég, Birta og Helga) að fara í sund á Króknum en reyndist þar allt lokað og læst. Brugðið var því á það ráð að hitta fóstra Helgu (Karl í Þjórsártúni) og hans fylgdarlið og leggjst þar í heitan pott - fór það vel. Að kveldi réttadags var svo farið á mikinn dansleik í reiðhöllinni. Margt var þar manna en einn tók klárlega öðrum fram um töffheit og vinsældir, nefnilega tengdasonur Borgarfjarðar Eyþór Einarsson.

Steingrímur ásamt ástkonu sinni, Ingu Völu
Eyþór að segja eitthvað mjög merkilegt (hlýtur að vera)


Aðrir af okkar fylgdarfólki áttu svo nokkuð góðan leik þetta kvöld en mun það ekki nánar rætt hér. Sunnudagseftirmiðdag var svo haldið heim eftir góðan snæðing og krufningu á atburðum næturinnar.


Ýmislegt fleira hefur verið brallað s.s. var farið á dansleik ekki fyrir löngu upp í Bæjarsveit þar sem var dansað og drukkið auk þess sem hatrammar keppnir voru háðar. Hestefnið mitt sem ég fjárfesti í á síðasta ári var svo á dögunum fluttur í Arnarholtið þar sem hann mun læra góða siði af gæðingunum þar. Bíldruslan mín (sem Mads á reyndar) hefur nú loks öðlast þá akstursleiginleika sem hún á að hafa. Það kostaði ekki nema skipti á 2 dempurum, einum bremsluklossa, viðgerð á nokkrum bremsudiskum, hjólastillingu og nýja hjólbarða.



Gandur í hesthúsinu á Gullberastöðum

Andastofninn á Gullberastöðum

Nú standa yfir skriftir á vísindagrein fyrir aðferðafræðiáfangann. Vísindagrein þessi er mér ekki auðveld skrif þar sem hún skal vera á ensku máli en mér hefur aldrei verið auðvelt að rita á ensku.

Sennilega hefur enginn látið fram hjá sér fara kreppuhjalið alltaf allstaðar. Kreppan kemur lítið við mig þar sem ég skulda ekki neinum nokkurn hlut (nema kannski einn og einn bjór og einhverja greiða). Helstu áhrif kreppunnar á mig eru þau að ekki er horfandi eða hlustandi á fréttir eða lesandi nokkur blaðsnepill nema yfir mann hvolfist kreppufréttir.

-hvað er þetta annars með þessa ,,nýju" banka, hafa menn ekkert hugmyndaflug??? Nýi landsbankinn, nýi glitnir?? Allt í lagi að einn banki heiti nýi eitthvað en þetta... Ég geri það að tillögu minni að það verði ekki stofnað neitt nýja kaupþing heldur einfaldlega Búnaðarabankinn - gamla merkið og allt.

Heyrðu já svo var á dögunum verið að vigta, ómskoða og slátra heima. Allt fór þetta ágætlega, þyngsta lambið ein 67 kg, einlembingshrútur undan Fjólu hans Teits og Gola sæðingahrút (eitthvað um að löm bæru 60+ kg og slatti 50+). Ómskoðunin ágæt, lærin að vísu aldrei neitt úrval en frambygging jafnan góð. Meðalvigt úr slátrun (um 200 lömb) reyndist vera 19,0 kg... gerð eitthvað um 10 og fita kringum 8.

Jæja ég ætla að halda áfram að bora í nefið.

  • Orð dagsins: Kýldur (lo.) - vel (illa) kýldur-
  • Orðið þýðir: -(um karlmann) hafa stóran(lítinn) kýl, vera mjög (lítt) vaxinn niður.
  • Dæmi: Ekki reyndist Kjartan illa kýldur. Vænn er vel kýldur maður.