Hér má lesa rugl eftir mig

26 febrúar 2010

Snjór

Góðan daginn

Þar kom að því - snjórinn kom. Það er að vísu trúlegt að hann fari einhverntíman eftir helgi en samt hann er hér og mikið af honum. Ég er búin að vera í nettu nostalgíukasti úti í snjónunm - búa til snjóhús, troða mér í gegnum skafla og svona. Ef það hefði ekki verið skítarok og eiginlega blindbylur þá hefði ég ábyggilega reynt að leita uppi einhvern hól hérna á Hvanneyri til að renna mér niður.
Það hefur dregið í skafla

Annars er eiginlega ekkert að frétta - það gerist eitthvað svo fátt núna. Skil ekkert í þessu. Venjulega hef ég fundið mig í hringiðu allra helstu viðburða en svo virðist vera að ég sé eitthvað að detta út úr öllu þannig. Kannski er ég að gamlast. Ég ætti þá kannski að tala um gamlafólksleg málefni eins og nýja safnaðarheimilið á Hvanneyri og sögukvöldið sem Bjarni Guðmundsson hélt þar á dögunum... ég er búin að tala um veðrið, það er gamlafólkslegt að tala um það en ég hef að vísu nokkuð sterka tilhneygingu til að tala um veður. Hvað er fleira gamlafólkslegt að tala um.... ? JÁ heilsu sína... ég hef verið all-heilsuhraust undanfarið, hægðirnar verið með besta móti enda verið dugleg að fá mér músli og stunda létta leikfimi. Svo fór ég í svínaflesusprautu niður í Borgarnes á dögunum og bjóst allt eins við að ég yrði slöpp en svo var ekki, þvílíkt lán. Jájá og sei sei.... sennilega er ég að gamlast.

En ég skellti mér á þorrblót á dögunum og að þessu sinni í Lundarreykjadal. Það var ágæt skemmtun, slatti af fólki og þokkalegt stuð. Set inn myndir á myndasíðuna af þessum heimsviðburði.
Óli á Hóli þykist ekki vera neitt glaður yfir þessu...

humm... hvað ætti ég að segja meira.... mér dettur eiginlega ekkert í hug.

best að enda þetta bara á;
Orð dagsins; einhala (kvk)
Orðið þýðir; haft um fjós með eina básaröð eða fjárhús með einn garða við vegg.
Dæmi; Kýrnar stóðu í einhölufjósi. Hagkvæmt gæti verið að hýsa féð í einhölufjárhúsi.

22 febrúar 2010

Í tilefni nýhafinnar Góu

Hafir þú einhverntíma velt því fyrir þér hvernig það væri að vakna við hlið mér er það eitthvað í líkingu við eftirfarandi mynd;


Það skal þó tekið fram að ég er ekki alltaf svona glaðleg og Helga deilir ekki með mér rúmi að jafnaði.

orð dagsins; plút
Orðið þýðir; spjör, flík eða skart.
Dæmi; Ég átti ekkert hreint plút til að klæðast. Birta hengir oft á sig plút þegar hún vill vera fín.

13 febrúar 2010

Í tilefni þess hvað mér leiðist

Gott kveld

Mikið ferlega leiðst mér. Mads er ekki heima, Helga er að leggja sig og Skvísa veitir ekki andlegan félagsskap að neinu gagni. Fyrir þá sem myndu koma með uppástungur um eitthvað klassískt eins og; taka til, baka eða sauma þá er það ómögulegt. Það er nefnilega svindl að ég sé að ryksuga og skrattst meðan Helga hvílist (og það er ekk nándar nærri nógu ógeðslegt hér til að vera rassakastast við einhver þrif), ég átti köku í frysti sem ég tók upp í gær og er búin með saumaverkefnin. Þetta er agalegt.

En að öðru. Skemmst frá því að segja að Ríkissjónvarpið náði ákveðnum hátindi í gær þegar það sýndi kvikmyndina ,,Glerbarnið". Þetta ris eins stærsta miðils Íslands hefur einnig verið rætt víðar s.s. hér; http://www.baggalutur.is/skrif.php?id=1705 auk þess sem málið er umtalað á Hvanneyri. Ég sá mér að vísu ekki fært að horfa á alla myndina því ég ,,þurfti" að fara í smávægilegt samsæti. Það er þó fullvíst að annað eins meistaraverk eins og Glerbarnið verður endursýnt áður en langt um líður.

Vegna sérlega góðrar tíðar síðustu daga hef ég farið í nokkrar góðar gönguferðir og þar af upp á tvö fjöll - Skeljabrekkufjall og Þverfell. Báðar ferðir voru mjög skemmtilegar, sérstaklega þegar maður var kominn upp. Læt myndir tala.

Ferðafélagar á Brekkufjalli, Krummi og Anna María

Pínu langt niður... húsin fyrir neðan allavega frekar lítil að sjá

Hér er Þverfell fremst (á máli innfæddra) í Lundarreykjadal

Hérna er ég alveg að komast á toppinn - magnað útsýni til austurs

Hér setti ég saman nokkrar myndir sem sýna útsýni af Þverfelli. Vatnið í forgrunni er Reyðarvatn (smellið á myndina til að sjá hana stærri ef vill)

Jamm og já... núna er Hreðjarsferð í gangi - sem ég lét fram hjá mér fara í þetta sinn. Mig langaði að vísu dáldið að fara en einhvernveginn nennti ég ekki. Sennilega er þetta ellin eða eitthvað slíkt. Ferðinni var annars heitið í Húnavatnssýslur þar sem meðal annars átti að skoða fjárhúsin heima hjá Siggu systur (Víðidalstungu) og Þorbjörgu (Böðvarshólum). En svona er þetta, ég valdi að vera heima og láta mér leiðast - way to go Mæja.

Þvílík bölsýni í þessu bloggi mínu. Ég ætti sennilega að láta þetta duga í bili.

orð dagsins: skuðrildi
orðið þýðir; kerlingarskrukka, dækja, flókatrippi eða garmur.
Dæmi; Á barnum var hópur skuðrilda. Margar verslanir bjóða til sölu afkáraleg skuðrildi sem kölluð eru tískufatnaður.