Hér má lesa rugl eftir mig

24 janúar 2007

Athafnasemi

Nú er nokkuð liðið frá síðasta pistli og hefur nokkuð á mína daga drifið síðan síðast.

Skólinn fór af stað með rólegheitum og fög annarinnar hafa enn ekki komið mér á óvart með yfirdrifnum skemmtilegheitum. Lítið er að frétta nema þó það að vikan 14. til 21. janúar var afar annasöm og hyggst ég segja hér lítið eitt frá helstu viðburðum.

Þegar vikan hófst var ég önnum kafin við að prjóna gríðar mikla lopapeysu á hávaxnasta bekkjarfélaga minn Axel Kárason og var ég í því verki þann tíma sem ég hefði líklega verið í að tala við ástmann minn, en hann var ekki heima þessa vikuna.

Mánudag fór ég ásamt fögru fylgdarliði í Borgarnes til að versla ýmsar nauðsynjar á borð við bjór, skrúfur og efni í kjötsúpu.

Þriðjudag fór ég svo aftur í Borgarnes ásamt öðrum flokki fagurs fylgdarliðs og í þetta sinnið var versluð nauðsynjavara á borð við áfengi og afmælisgjöf en mér hafði verið boðið í afmæli á miðvikudeginum.

Miðvikudagurinn 17. janúar rann svo upp. Þegar líða tók að kveldi hélt ég í afmælisboð hjá Helgu Maríu en þetta kvöld fagnaði hún 23 afmælisdegi sínum með því að bjóða í kjötsúpu.

Fimmtudagskvöld var svo gleðskapur á Árgarði en íbúar neyttu þá þess áfengis sem keypt var fyrir dósapeninga. Sú gleði barst síðan um stund á Kollubar þar sem fótabúnaður minn vakti athygli – brún Viking gúmmístígvél, en svo var farið að nýju á Árgarð og drykkju haldið áfram.

Föstudagurinn var rólegur framanaf en svo þegar líða tók á daginn var hafinn undirbúningur fyrir herlegheit helgarinnar – ferð Hrútavinafélagsins Hreðjars í Skaftártungur. Ég hafði lofað að keyra þann eðla vagn Mözdu að Sandlæk í Gnúpverjahreppi á föstudeginum og hafa innanborðs Þorrablótsfara fjóra þau Birtu, Valþór, Helgu og Einar. Þetta gerði ég og tókst ferðin vonum framar og veit ég ekki betur en Þorrablótið hafi verið hin besta skemmtun.

Árla laugardagsmorguns reif ég mig á fætur og ók að Sandlæk til að hitta væntanlega bílfélaga í Hreðjarsferð (Helga Hauk, Guffu, Helgu og Birtu). Eftir staðgóðan morgunverð var liðinu og draslinu pakkað í Subaru-bifreið Helga Hauks og haldið af stað á Hvolló (Hvolsvöll) en þar hittist sá ágæti hópur sem í ferðina fór.

Myndir munu nú tala að mestu leyti sínu máli:


Heiða á Ljótarstöðum býður gestum Smirnoff


Helgi, Eyjólfur og Bjarni taka á fé Snæbýlisbóndans

Fjárhúsin á Borgarfelli voru spáný

Heiða í Úthlíð býr svo vel að hafa koníaksstofu í sínum fjárhúsum

Um kvöldið fengum við svo afbragðs hangikjöt í félagsheimilinu Tunguseli en þar gistum við svo um nóttina. Um hádegi á sunnudag var svo haldið á Kirkjubæjarklaustur og þeir sem list höfðu fengu sér eitthvað að snæða í sjoppunni á staðnum. Þá var tekið að fylgja sunnudagsdagskránni og munu myndir enn tala:


Eyjólfur (stór) og Steingrímur (smærri) í fjárhúsunum á Kirkjubæjarklaustri


Guðfinna mundar myndavél og Óðinn rannsakar gjafagrindur í fjárhúsunum í Fagradal

Á leiðinni að sandlæk komum við svo við hjá Báru fyrrum bekkjasystur þriðja árs í búvísindum. Þar fékk Helga María þessar glæsilegu reiðbuxur sem hún spókaði sig svo í fram eftir kvöldi.


Leikið við linsuna á nýjum reiðbuxum.

Þegar öllu þessu var lokið snæddum við svo á Sandlæk og fengum örlitla leiðsögn um fjárstofn Helga Hauks. Síðan var sest upp í Mözdu og ekið á Hvanneyri.


Orð dagsins er úrinn
Úrinn þýðir; 1. Votur, rakur 2. Úrillur, skapstyggur

Dæmi: 1.Snorri var úrinn eftir hann féll í pollinn. 2. Sigríður er úrin í morgunsárið.

05 janúar 2007

Jólaannáll.

Jæja nú eru jólin alveg að verða búin og nýtt ár komið ágætlega af stað. Til hamingju með það.

Eftir stranga prófatörn í desember komst ég loks í jólafrí. Með fyrstu verkum var að þrífa svolítið til á Árgarði og tók ég að mér þvottahúsið, geymsluna og forstofuna. Þar var skúrað og skrúbbað og allt varð gott að lokum. Þegar öllu þessu var lokið hélt ég heim á leið á drossíunni minni með viðkomu í höfuðstaðnum. Þar skilaði ég af mér einni jólagjöf og keypti svo jólagjöf handa ástmanni mínum; stjórnbúnað á hest. Svo ók ég eina leiðinlegustu leið á Íslandi, Hellisheiði, á Selfoss. Þar skilaði ég af mér annarri jólagjöf og ók svo eins og druslan dró upp að Brúarhlöðum en þar voru gríðarlegir vatnavextir sem mig fýsti að sjá.

Brúin yfir Hvítá við Brúarhlöð í vatnavöxtunum. Venjulega eru nokkrir metrar niður í vatnsborðið

Jólafríið var svo alveg hreint ágætt. Ég eyddi tímanum í að pússa sófaborðið okkar og fleira uppbyggjandi s.s. að gefa rollunum og aðstoða mína sælu móður við heimilsstörfin. Jólagjafirnar voru gríðar margar þetta árið, enda bæði foreldrar mínir og tengdaforeldrar fráskildir. Sem dæmi um jólagjafir vil ég nefna;

Sokka frá ömmu og afa
Prjóna, helklunálar og fleira í þeim dúr frá mömmu og Sæsa
Teymingargjörð og hitamæli (ekki rassa) frá Mads
Hjartalaga sílikonkökuform frá móðursystur hans Mads
Þæfða veggmynd af bílnum mínum frá Bjarna bróður
Hleðsluborvél frá Húsum og stigum

Saman fengum við Mads svo ýmsa hluti;
Gjafabréf í ýmsar búðir frá Svani bróður pabba
Skálasett frá Eiríki bróður mömmu
Hraðsuðuketil og vaggandi jólafólk frá Afa og Ásu

Og margt fleira.

Sem sagt gríðarlegt gjafaflóð og mikil gleði og hamingja.










Skallinn á mér og smettið á Mads í banajólastuði á aðfangadagskvöld

Áramótin voru róleg að vanda, lítið um sprengingar og áfengisdrykkju.

Mads fór svo aftur að Hvanneyri á nýársdag enda þurfti maðurinn að mæta í vinnu 2. jan.
Ég kom svo að Hvanneyri í gær og vann það þrekvirki að aka ein og óstudd í bóksölu stúdenta og versla þar eina bók, skrúfblýant og möppu. Takk fyrir takk.

Nú er ég hinsvegar að hugsa um að baka hjónabandssælu í hjartaforminu mínu.

Orð dagsins sögnin; að fjolla
En það er gamalt mál og þýðir; daður eða lauslegt ástarsamband.

Dæmi: Helgi fjollaði við Helgu meðan þau snæddu ostrur. Smári og Einar fjolluðu saman um tíma