Hér má lesa rugl eftir mig

26 mars 2010

Það blanda allir landa....

Góða kvöldið

Nú hefur aldeilis margt á dagana drifið. Bæði svona almennt og í mínu bráðspenanndi lífi. Ég segi stuttlega frá þessu.

Um síðustu hegi fór ég á heimaslóðir mínar til að aðstoða föður minn við mjaltir og bræður mína við gegningar. Það var alveg hreint ágætt, gerði ýmislegt hressandi eins og að moka skít og járna. Skrapp líka með bræður mína á opin dag á Stóra-Ármóti sem var ágætt.

Hinir eldspræku Magnús B. Jónsson landsráðunautur í nautgriparækt og Guðmundur Jóhannesson ráðunautur á Búnaðarsambandi Suðurlands létu sig sko ekki vanta á Stóra-Ármót

Merin hans Mads hún Freyja sést hér í árásarham

Þegar ég skildi við í síðasta bloggi var ég búin að vera að plana að fá hingað hross. Þau eru komin núna og það er mjög ánægjuleg. Pjakkur er að vísu ekki jafn sáttu við þetta allt, í það minnsta var hann með allra latasta móti í gær þegar ég fór á bak. Meri sótti ég svo í Arnþórsholt í gær og fékk með henni fylgdi spáný klipping og poki af fóðurbæti - ekki amalegt það. Mér sýnist það nú vera ágætisgrey en það á að vísu eftir að koma betur í ljós.



Kláraði svo að kenna staðarnemum í fóðurverkun í síðustu viku og var með próf í áfanganum núna á miðvikudaginn og fór það vel. Skríllinn sá heldur svo í verknám eftir páskana og sjást líklega ekki á Hvanneyri fyrr ein einhvern tíma í júní. Kennslu er þó ekki alveg lokið því það eru 18 stykki fjarnemar sem á eftir að klára að kenna. Besta mál.

En kennslutengt. Fór í dag í ferðaleg með sauðfjárrækt 2 (bændadeild 2) á Strandir að skoða sauðfjárbú. Fórum í heimsók í Húsavík, á Heydalsá og að Smáhömrum. Ég tók að mér að keyra í þessu ferðalagi, aðallega vegna þess að bíllinn minn er stór og rúmgóður og mér þykir gaman að keyra. Ég og mínir hressu ferðafélagar, Rúnar og Geir (+Stefán á norðurleið en Jóhann á suðurleið) ákváðum að fara dálítinn hring og keyra Arnkötludal heim. Það var alveg ágætt nema þegar við vorum rétt komin yfir hæsta punkt var trailer þversum á veginum og þurftum við því að bíða nokkra stund. Þrátt fyrir biðina náðum við á Hvanneyri á undan þeim sem fóru Hrútafjörð og Holtavörðuheiði.

Þessar krúttlegu gimbrar höfðu það notalegt í nýjum fjárhúsum á Heydalsá

Það greip mig svo gífurlegur dugnaður í gær í kjölfar áskorunar frá ástmanni mínum. Ég smellti í kleinur. Af góðmennsku buðum við svo Eygló Óskarsdóttur vínsala og nágranna okkar yfir í kaffi og kleinur og varð úr því hið ágætasta kvöld.

Sjáiði bara hvað ég er dugleg

Látum þetta gott heita í bili.

Orðdagsins; frugg
orðið þýðir; lélegt gras, myglað hey eða éljahreytingur.
Dæmi; Strandarollurnar fengu ekkert frugg. Örlítið frugg var á Arnkötludal.

ps. fleiri myndir á leið á myndasíðuna

11 mars 2010

Af gærum og gæjum

Jæja er ekki tímabært að setja hér inn nýja færslu? Ég held það.

Það hefur svo sem ekkert sérstakt átt sér stað en það er nú allt í lagi. Ég veit reyndar, vegna þessa tíðindaleysis, ekkert hvað ég ætti helst að skrifa... kannski get ég að vísu byrjað á því að greina frá því að um helgina stefnir hópur fólks á að fara í búfjárræktarferð í Skagafjörðinn. Það mun vera sögulegur fjöldi sem er að fara að þessu sinni - rúmlega 70 manns. Dagskráin er svakaleg og eflaust mun skríllinn skemmta sér ljómandi vel. Nú annað nánast jafn spennandi sem er á dagskrá þessarar helgar er það að Mads ætlar að sækja sér fleiri hænur og að því ógleymdu að Skvísa ætlar að fá sér ormahreinsun - íha.

Sit núna fyrir framan sjónvarpið með Helgu mongó að horfa á þá frómu þáttaröð ,,hvernig ég kynntist móður þinni" (Helga segist ekki vera mongó - hún sé bara að klóra sér). Þessi þáttaröð er annars dáldið skemmtileg, tekur fyrir allt þetta klassíska, ást vesen, grín og svona... Nú svo tekur við enn meira af áhugaverðu sjónvarpsefni - Elli Steinn og svo náttúrulega píurnar á Bláregnsslóð.... úff áhugaverða líf.

Annars fór ég að heimsækja strák um dagin. Hann var búinn að ræða það við mig að einhverntíma í haust að ég myndi taka fyrir hann hross og ákvað ég að skreppa og kíkja á gripinn. Strákurinn er hinn margfrægi Dúddi í Holti eða Guðmundur í Arnþórsholti eins og enginn þekkir hann. Truntan leit bærilega út og stendur til að skottast eftir henni einhverntíma við tækifæri. Talandi um truntur þá er ég líka að spekúlera í að fá hingað gamla klárinn minn um þarnæstu helgi, svona til að halda honum og mér svolítið við.

Hér sést Dúddi í heyskap síðastliðið sumar. Myndin er af vef Skessuhorns.

Jæja, tími á orð dagsins

orð dagsins; hábrókast (so.)
orðið þýðir; vera drembinn, monta sig
Dæmi; Dóri hábrókaðist yfir árangri sínum í prófunum.