Hér má lesa rugl eftir mig

24 mars 2008

Mars blogg...

Gleðilega páska...

Jæja það óheyrilega langt síðan síðast og sennilega verður langt þangað til næst.
En það er nú kannski ekki frá mörgu að segja og í raun hundleiðinlegt að lesa upptalningu á löngu liðnum atburðum sem margir lesendur hafa jafnvel tekið þátt í og vita þar af leiðandi allt um. Þess vegna ætla ég aðeins að segja frá páskunum.

Páskarnir eru haldnir út af Jesú eða Sússa eins og við þekkjum hann mörg. Sússi drapst nefnilega og lifnaði aftur við á páskunum og þykir það fremur merkilegt í ljósi þess að menn eru ógjarnir á að rísa upp frá dauðum. Nema Sússi, hann gerði það. Flóki prestur á Hvanneyri minnti hesta sína á upprisu Sússa með því að rita með svörtum túss ,,kristur er upp risinn!" á heyrúlluna þeirra. Mér virtust þeir ekki sérlega upprifnir yfir því.

En nóg um Sússa. Ég hef nefnilega gert margt og merkilegt um páskana. Ég hafði stór áform um að gera þetta og hitt um páskana og ótrúlegt en satt komst megnið af því í verk.

Nr. 1. Ég hugðist þvo utan af pullunum á ,,hvíta" sófanum hennar Siggu. Það ver varð að gerast á tíma sem þessum þegar nánast enginn er heima því annars er alltaf einhver liggjandi í sófanum. Ég þvoði utan af sófanum, setti á aftur og ryksugaði í stofunni frammi.

Nr. 2. Ég hugðist prjóna ný stroff á eina lopapeysu. Peysa sem átt hefur þrjá böðulseigendur; Jón Hjalta, Mads og mig þarfnaðist umönnunar á stroffum. Ég er búin að rekja þau gömlu af og byrjuð á ermastroffi 1.

Nr. 3. Ég hugðist fara í ,,útreiðatúr" á tamningartryppinu Krónu. Gerði það í dag og komst heil frá því enda merin hreint eins og ljós.

Nr. 4. Ég hugðist elda gæs í páskamatinn. Pabbi færði okkur einhverntíma gæs sem var búin að bíða NB frammi í frysti eftir tilefni til að vera snædd. Ég kom því í verk að elda hana í gær. Fylling úr samtíningi úr frysti og ísskáp og meðlæti að hætti hússins (pakkasósa og soðnar kartöflur). Ótrúlegt en satt smakkaðist vargfuglinn vel og ég hef í það minnsta ekki fengið drullu enn sem komið er.

Nr. 5. Ég hugðist sauma gardínur. Mamma gaf mér forkunnarfagurt gardínuefni fyrir löngu sem mig langði að sníða fyrir stóra gluggann í stofunni. Þessu kom ég í verk í dag. Reyndar er þetta ekki algjörleg fullkomið eins og glöggir menn sjá á myndinni en ég er ánægð með þetta.

Nr. 6. Ég hugðist klára heimildakaflann í lokaverkefninu mínu. Ég er allavega búin að senda heillangt rugl til leiðbeinanda míns til að setja út á - það er ekki þar með sagt að ég sé búin með hann...

Nr. 7. Mads ætlaði mér að baka flatkökur. Mads er mikill áhugamaður um flatkökuát og hefur því oft beðið mig að baka slíkt. Flatkökubakstur er sóðalegt vesen sem ég nennti ekki að standa í þessa páskana.

Ég er nokkuð ánægð með þetta því að auki fórum við Helga upp að Gullberastöðum á föstudaginn (langa). Þar barði ég augum og fák minn fagran og sá að hann hefur vel braggast í föðurhúsum. Einnig sté ég á bak ekta Gullberastaða gæðingi og reið honum sem leið lá til Oddsstaða. Þar veittur húsráðendur vel af rauðvíni, káli, kexi og ostum auk þess sem misskemmtileg málefni líðandi stundar voru rædd. Að loknum útreiðatúr fórum við svo í sund í Brautartungu sem var unaðslegt.
Þessa páskana höfum við Mads einnig haft umsjón með hinum mjög svo þurftafreka Ljóna (kötturinn hennar Silju). Ljóni þarf töluverða athygi og oftar en ekki á leiðinlegum tíma s.s. þegar ég er að reyna að sofa. Hann gerði til dæmis tilraun til að brjótast inn í svefnherbergi í morgun klukkan 7:00. Ég barðist hetjulega - henti honum út í runna og lokað glugganum.

Jájá... í kvöld er ég að hugsa um að gera kannski ekki neitt... eða horfa á ódauðlegt kvikmyndalistaverk á Rúv... eða eitthvað.

Orð dagsins: (að) vöfla.
Orðið þýðir: masa eða þvaðra.
Dæmi: Aldís á það til að vöfla út í eitt. Fyllerýisvöfl er oft á tíðum skemmtilegt.