Hér má lesa rugl eftir mig

24 febrúar 2007

Af frægum og fallegum

Sælt verið fólkið

Í gærkvöldi var grímuball á Indriðastöðum. Þar var gríðarleg stemning en athygli vakti að þar var stórstjarnan Britney Spears sem mikið hefur verið í fréttum undanfarið. Britney var á ferð með hel-mössuðum lífverði sínum Vöðva-Valla sem varði hana fyrir öllu óæskilegu áreiti skítugra sveitamanna.

Þessar myndir eru sláandi líkar og leikur grunur á að önnur sé fölsuð. Talið er þó að sú vinstramegin sé af hinni réttu Britney þar sem bakgrunnurinn þeim megin er mun meira sannfærandi.

En Britney var ekki það eina merkilega á svæðinu. Þarna voru líka tvö pör af tvíförum þeir Unnsteinn og Unnsteinn og Óðinn og Óðinn.

Hér sjást tvífarapörin tvö, Unnsteinn og Unnsteinn og Óðinn og Óðinn. Hinir raunverulega Unnsteinn og Óðinn eru staðsettir lengst til vinstri og lengst til hægri.

Annars fór ballið gríðarlega vel fram og voru margskonar sniðugir búningar til staðar s.s. kýr, kúrekar, mexíkanar, þernur, zorro og ýmislegt fleira.
Dans var iðkaður af miklum krafti og var margt glæsilegt sporið stigið við þau skelfilega slöppu lög sem Dj. Binni hristi framm úr erminni.

Fá pör á dansgólfinu sýndu eins mikla innlifun og Magnús (úr tvíeykinu Magnús & Eyjólfur) og Júdó-Eiki. En hér sést ákveðnin og innleikinn skína úr augum þeirra.

Svo virðist sem flestir hafi komist heilir heim og enginn dáið nema til skamms tíma.

Færi ég UMSK II (umhverfisskipulag II) mínar bestu þakkir fyrir þessa ágætu skemmtun (nema rispuðu og lélegu diskana hans Dj. Binna) og einnig þeim sem ég hafði félagsskap af þarna um kvöldið.


Orð dagsins: Dyfringsháttur
Orðið þýðir: sljóleiki
Dæmi: Ofdrykkjumaðurinn sýndi töluverðan dyfringshátt eftir að hafa kastað upp í tíunda sinn.

22 febrúar 2007

Rjómablíða

Góðan dag

Að vanda hef ég verið heldur löt við að skrifa hér.

Heilsuleysi hefur gert vart við sig á mínu heimili hér á Hvanneyri. Við Mads, og fleiri reyndar, höfum þjáðst af kvefi með hósta, hori og slappleika síðustu vikurnar – unaðslegt. Þetta er reyndar allt að skána og eru flestir að mestu leyti risnir úr rekkju og snúnir til fyrri starfa.

Annars er nú mest lítið að frétta og slúðrið í lágmarki en vonir standa til að eitthvað gerist krassandi á grímuballi sem halda skal á Indriðastöðum annað kvöld. En talandi um grímuball þá var einmitt öskudagur í gær og lögðu nokkrir sönglandi sníkjupúkar leið sína á Árgarð. Tveir þeirra voru reyndar með eldra móti en áhuginn fyrir athygli var síst minni en hjá þeim sem yngri voru.

Ég fór út áðan til að eiga stund með bílnum mínum, Daihatsu Rocky, sem þið þekkið nú líklega mörg. Þar rakst ég á fyrsta skráningarskírteinið hans og er það frekar fróðleg lesning. Þar stendur nefnilega; Notkun: Torfærubifreið.


Orð dagsins: að svarfla
Það þýðir 1: rugla, færa úr lagi, kollvarpa, eyða. 2: ræna, fara ránshendi um.

Dæmi: 1: Silja svarflaði hárgreiðsluna er hún barði hausnum við steininn. 2: Meydómi er gjarnan svarflað af óprúttnum mönnum.

01 febrúar 2007

Æsispenna

Það er fimmtudagskvöld!

Framlengingin á leik Dana og Pólverja stendur yfir. Mads er svo spenntur að hann fór á dolluna til að létta á...

Það er bara ekki öðruvísi.


Orð dagsins er: Sestína
Það er: Órímaður bragháttur frá 12. öld, nær óþekktur á Íslandi, sex erindi með með sex braglínum í hverju nema þrjár í lokaerindi og fimm stígandi bragliðir í hverri línu.
Dæmi: Bernharður orti sestínur til heilla dömurnar.