Hér má lesa rugl eftir mig

05 janúar 2009

...ýmist í sleik eða slagsmálum...

Jæja... nú er það komið árið 2009. Hvern hefði órað fyrir því?
Ég kom mér hjá því að skrifa nokkuð í desember enda var þokkalega mikið að gera þá aldrei slíku vant. Prófagerð, ritgerðaskrif, prófayfirferð og svo bráðskemmtileg veikindi sem hindruðu mig í áti um nokkurn tíma og örsökuðu það að ég neyddist til að reka við með aðgát í nokkra daga. Sem betur fer var það liðið hjá þegar jólaátið gerði innreið sína.
Við Mads áttum rómantísk jól tvö saman ásamt hundinum. Ekki sérlega rómantísk samt, við erum ekki rómantískt fólk auk þess sem Mads var aðallega úti í fjósi að sinna kúm. Ég eyddi tíma mínum mest í að láta mér leiðast þar sem veðurfarið hérna bauð að vanda ekki upp á neina útiveru eða slíkt.

Jólamaturinn var: sjávarréttsúpa í forrétt, gæsabringur og gráðostakartöflur í aðalrétt og jólaís frá Kjörís í eftirrétt

Jólagjafaheimtur voru ágætar, slatti af bókum, einkum um kynlíf og sakamál auk náttfata, handklæða, hnífapara, dekkjaviðgerðasetts og svo kom gjafabréf á saumavél. Haldin voru litlu-jól með góðum hópi en þá var einmitt étið svolítið meira og teknar upp nokkrar gjafir í viðbót (þar reyndust vera tveir hlutir af óskalistanum, fjölnota töng og útivistarlegghlífar).

Nú áramót komu líka. Enn étið, svo partý - kom meira að segja fólk sem við þekkjum ekki, eða allavega lítið. Hundarnir reyndst ekki vera sérlega þolinmóðir gagnvart rakettusprengingum, sátu skjálfandi undir stofuborði meðan nágrannarnir kveiktu í hverjum 5000-kallinum á fætur öðrum með tilheyrandi látum og ljósadýrð.

Birta, líklega með einn fyrsta bjór ársins

Annar dagur nýja ársins reyndist dagur viðburða. Helgi og Guffa gerðust foreldrar rauðhærðs (surprise!) afkvæmis af kvenkyni og við Helga skelltum okkur á heimaslóðir mínar að sækja afþreyingu - 3 stykki hross. Allt mun þetta hafa gengið stóráfallalaust fyrir sig.

Króna er eitt þeirra hrossa sem sótt voru í Árnessýsluna

Núna er tæp vika í að skólinn hefjist á ný. Ég ætla að taka á honum stóra mínum og sækja einn áfanga og fer því í skólann einu sinni í viku. Kannski kíki ég svo eitthvað á lokaverkefnið mitt og kenni bændadeild 1 fóðurverkun. Aldeilis spennó tímar í vændum.

Jæja segjum þetta gott í bili. Kannski ef ég verð duglega geri ég annál 2008 á næstunni, hver veit.

Orð dagsins er eyrnasmolt.
orðið þýðir; eyrnamergur.
Dæmi: Ætíð skyldi hreinsa eyru sín af eyrnasmolti. Ekki bragðast Campari sem eyrnasmolt.