Hér má lesa rugl eftir mig

27 mars 2007

Gefin loforð

Ég held að ég hafi lofað einhverjum að blogga um atburði síðustu daga. Man samt ekki alveg hver það var en það er líklega aukaatriði.

Sem sagt. Á föstudaginn héldu þær Guðfinna og Svana upp á 25 ára afmælin sín á Kollubar. Við íbúarnir á Árgarði mættum saman og gáfum saman glæsilegar gjafir, bleika kórónu, bleika buddu með áletruninni ,,princess” og bleikt armband í stíl við alltsaman. Þarna var slatti af fólki bæði frá Hvanneyri og svo fólk sem afmælisbörnin buðu en það er frá einhverjum öðrum stöðum. Bjór var í boði fríkeypis framan af og var það gott. Ástmaður minn gerðist þreyttur er fór að síga í ellefu og fór þá heim en ég skemmti mér fram undir þrjú og slangraði svo heimleiðis.

Guðfinna afmælisprinsessa skammtar ölið

Svana afmælisprinsessa í afar góðum gír

Sigga og Sigurborg bregða á leik

Allir helstu menn voru mættir, þar á meðal, Vignir, Þórhallur á Grímarsstöðum, Sigurður Þór, Unnsteinn og glittir í Steingrím

Laugardagurinn var áfallalítill. Skroppið var á opinn dag á Hesti en þar var margt að skoða og ekki síst að safna. Það var nefnilega fullt af áhugaverðum bæklingum um allt milli himins og jarðar auk úrvals fallegra derhúfa og skriffæra merkta hinum ýmsu fyrirtækjum.

Áburðarverksmiðjukonan í fantastuði í stíunni sinni

Kerlingarnar hérna á Árgarði, Sigga, Silja og Aldís, smelltu sér svo á ball á Venus á laugardagskvöldið ásamt Perlu og Boggu og gat ég ekki annað séð á þeim á sunnudag en að þær hefðu haft góða skemmtun.

Í gær og dag kom veðrið Hvanneyringum heldur betur á óvart... Það var hvorki rok né rigning! Og það sem meira var, það var sólskin og frostlaust – ótrúlegt.


Orð dagsins er: Dyrgja
Orðið þýðir: 1. dvergvaxin kona. 2. Digur, durgsleg kona.
Dæmi: Sumir menn eru kynósa af dyrgjum. Dyrgjur eru sjaldséðar í Borgarfirði.

17 mars 2007

Mánuðurinn mars.

Jæja þá er kominn mars. Loksins...

Alltaf nóg að gera. Prófatörn nýlega lokið og er það gott enda voru prófin að þessu sinni í frekar leiðinlegum fögum; hagfræði og plöntulífeðlisfræði. Nú eru fögin lítið eitt áhugaverðari og manni flýgur jafnvel í hug að maður geti haft not af þeim í framtíðinni... Ekki er þó óhætt að fullyrða um það.

Nokkrir gleðilegir hlutir hafa átt sér stað undanfarið.

Til dæmis var próflokum fagnað með nokkrum krökkum með því að fara í sundferð, á töltkeppni og í heimsókn á helstu bæi í nærsveitunum. Það var að mörgu leyti ákaflega skemmtilegt.

Um síðustu helgi héldum við ástmaður minn svo á mínar heimaslóðir til að sæka tvö stykki hross. Þau eru nú komin í Borgarfjörðinn heilu og höldnu og veita mér tilefni til að gera eitthvað annað en að læra svo sem eins og einu sinni á dag.

Gæðingurinn Pjakkur

Í fyrrakvöld var svo loksins fjárhúsgrill eftir langt hlé. Þangað mætti slatti af fólki og grillaði sér hvaðeina sem hugurinn girntist og dreypti á ýmiskonar veigum. Þegar leið á kvöldið var haldið á barinn og svolítið meira drukkið, sungið og trallað. Ég skemmti mér konunglega og til allarar hamingju var ég nánast ekkert ,,lasin” daginn eftir.

Suma lætur maður bara ekki bendla sig við....


Minningu Sigga Frigg haldið á lofti.

Orð dagsins er: Kynósa
En það þýðir: að vera gegnsýrður af kynlífshugsunum og -atferli.
Dæmi: Drengurinn sannaði það á dögunum að hann er gjörsamlega kynósa