Hér má lesa rugl eftir mig

29 nóvember 2009

Kannski er kominn vetur

Góðan dag

Fyrsti almennilegi snjórinn er kominn. Ekki svo að skilja að þetta sé eitthvað svakalegt magn, bara dálítið meira en nokkrir millimetrar. Mér finnst hann vera mæta fremur seint, finnst endilega að hann hafi oft komið í október en að vísu farið fljótlega.

En já. Það er víst farið að styttast í jólin núna, fyrsti sunnudagur í aðventu - ég man reyndar ekkert hvaða þýðingu sá dagur á að hafa enda er það hreinasta aukaatriði. Eitt reynar veit ég að þessi dagur þýðir - jólavesenið allstaðar hefst fyrir alvöru. Jólalög, jólaauglýsingar, jólastress, jólahreingerningar, jólabakstur og jólaalltmögulegt. Ég er ekki komin í stuð fyrir þetta.
Annað sem þessi jólastyttingur þýðir er að það líður óðfluga að prófum. Ég þarf ekki að fara í neitt próf að vísu, bara búa til próf, vera með próf og fara yfir próf - sem er aðeins skárra en að taka próf sjálfur en samt ekkert stuð.

Þurfti að skreppa út rétt í þessu. Skvísa vildi nefnilega fara út að pissa - hún komst þó ekki lengra heldur en rétt út fyrir dyr því þar stóð hún föst í skafli. Ég varð því að drífa mig út og moka hundinn lausan.
Skvísa hafði það ekki svona notalegt í skaflinum

Út um svaladyrnar, sér á pallinn og í hornið á hundakofanum

Prjónaði peysu á Mads á dögunum. Tókst að gera mátulega peysu á manninn í fyrstu tilraun að þessu sinni. Síðast þegar ég prjónaði á hann peysu voru nefnilega gerðar 2 allt of stórar áður en passlegt eintak fékkst. Reyndar vildi svo leiðinlega til að þetta passlega eintak hvarf í flutningum í fyrrasumar.

Mads á landsmóti á Hellu í gömlu og glötuðu peysunni

Nýja peysan

Minni ykkur á nýstofnaða myndasíðu mína hérna til hliðar - myndir frá mér.

Orð dagsins; refbeinóttur
orðið þýðir. kiðfættur, gulur á hæklum (um sauðfé).
Dæmi; Lítil prýði er af refbeinóttum karlmönnum. Margt fjárins var refbeinótt.

23 nóvember 2009

Skammdegi

Djöfull er erfitt að vakna á morgnanna núna - sama hvort klukkan er 6 - 7 eða 8 er alltaf jafn mikið kolsvartamyrkur - skollans möndulhalli.

En það er nú svosem alltaf verið að reyna að lýsa þetta eitthvða upp fyrir mann. Til dæmis var árshátíð nemendafélagsins ásamt hrútauppboði Hreðjars um helgina. Það var afbragðsskemmtun.

Þetta glæsilega mar (sigmar) á rætur sínar að rekja til dansgólfsins á árshátíðinni

Svo er nú farið að styttast í jólasturlunina sem er nú sennilega upphaflega hugsuð til að hressa mann við í skammdeginu (jájá og afmælið hans Sússa og allt það).

Enn einu sinni hefur bankanum mínu tekist að misnota tækifæri til að taka upp á ný nafnið Búnaðarbankinn - sem er klárlega skásta nafnið sem þeir hafa notað. Fyrst var það bara Búnaðarbankinn en hann sameinaðist svo Kaupþingi og úr varð - KB-banki (1). Svo var því breytt í Kaupþing (2). Svo hrundi allt og ríkið eignaðist draslið og kallaði það því frumlega nafni Nýja-Kaupþing (3). Nú fyrir fáeinum dögum var svo enn einu sinni breytt til og að þess sinni varð ónefnið Arion-banki fyrir valinu (4).

orð dagsins er; keikla (so).
Orðið þýðir; ganga hægt og þyngslalega.
Dæmi; Mads keiklaði heim af hrútauppboðinu.

16 nóvember 2009

Endurhlaðið

Sæl á ný

Nú er svo komið að ég hef gefið hinni svo kölluðu smettisskruddu (e. facebook) leyfi vegna þess hve ferlegur tímaþjófur hún getur verið. Ég ákvað því að koma þessu bloggi í gang á ný, svona til að hafa eitthvað til að sóa tíma mínum í.

Í ljósi þess að ég nenni ekki að búa til glærur um mjólk og mjólkurvinnslu fyrir nautgriparækt 1 þá ákvað ég að skrifa nokkrar línur hér, þó ekki verði þær margar.

Annars óska ég okkur gleðilegs dags íslenskrar tungu.

Orð dagsins;
Hölkn
Orðið þýðir; grýtt og gróðurvana landsvæði, hrjóstur, flatt berg
Dæmi. Hölkn er víða á Tungnamannaafrétti.