Hér má lesa rugl eftir mig

29 janúar 2010

Janúar að klárast

Jæja, nú er janúar alveg að klárast.

Þetta er nú búinn að vera meiri mánuðurinn - nýtt ár, engin icesave-lög, hellingur af handbolta, rúv í enn hraðari niðurleið en áður, húsleit hjá Íslandspósti (aldrei að treysta póstinum) og ég veit ekki hvað og hvað - já og J. D. Salinger er dauður - hvar endar þetta eiginlega?.... vonandi í febrúar.

Jamm og já.
Ég skellti mér á vinnuvélanámskeið í vikunni. Þrír unaðsdagar á Flúðum með gistingu hjá föður mínum. Bráðum get ég þá löglega ekið dráttarvél - þ.e.a.s. þegar ég verð búin að taka verklegt próf. Jess.

Handboltakarlarnir okkar eru aðeins búnir að skána í áliti með árangri sínum þarna úti í útlöndum - jafntefli eru samt ekkert töff að mínu mati. Jamm og já...

Þorrablótið í Tungunum var á föstudaginn var (Bóndadag). Þar var glaumur og gleði og læt ég hér myndir lýsa stemmingunni fram að þeim tíma sem ég fór heim (eftir að hafa gert þessa klassísku hluti, drukkið ótæpilega og gubbað).

Helga María (26) og Sævar (44) í góðu stuði

Hinn bitri sannleikur. Mæðgurnar Sigga (45) og Mæja (24) í hörkupósu

Hallgrímur (Rosagamall) og Þrúða (eitthvað yngri) sátu til borðs með okkur

Skemmtiatriði í anda kvenfélagisins. Maðurinn með víkingahjálminn er í hlutverki Rúnars Björns (21).

Sævar (44) og Trausti (27) voru heitustu gaurarnir að mati Siggu Jóns (45)

Óþekkt kvensa og Ívar Sæland (26) helltu rækilega í sig í tilefni dagsins

Tinna Jóns (26) og Birkir Kúld (25) rokkuðu á hinni svokölluðu vesturhlið (west-side)

Svona var svo stemmarinn daginn eftir. Helga (26) og Sigga Jóns (45) eins og sólargeislar

Jájá... þetta var nú skemmtileg sýning - þessar myndir og fleiri á myndasíðunni. Næst á dagskrá hjá mér sjálfri æsispennandi járninganámskeið núna um helgina og vonast ég til að geta lært margt og mikið af Lunddælska járningasnillingnum Sigurði Oddi.

yfir og út

Orð dagsins; síðkyssinn (lo)
orðið þýðir; seinn til kossa
Dæmi; ekki var Helga síðkyssin er hún hafði króað draumaprinsinn af.

21 janúar 2010

Á síðkvöldum

Gott kvöld góðir landsmenn

Ég var að horfa á handboltaleikinn áðan (eins og ábyggilega ógeðslega margir aðrir) og þetta var nú ekki laust við að vera spennandi. Helga var æsispennt - var sífellt eitthvað að hnippa í mig og góla upp yfir sig... En varðandi frammistöðu liðsins - þvílíkur endemis aulaháttur.

Þeir eru nú krúttlegir margir strákarnir í landsliðinu, þó þeir séu aular

Já þannig er nú það.

Ég er eiginlega alveg upp rifin yfir öllum kommentunum sem ég fékk á síðustu færslu. Ég hafði bara ekki gert mér grein fyrir að Útsvar væri svona mikið hitamál. En það er það greinilega. Ég vissi reyndar af þessu með Júró - það eru all margir sem eru sjúklega spenntir yfir því fokki en ég er blessunarlega nokkuð laus við það.
Ég veit ekki hvort ég get borið hér á borð einhver álíka hitamál í þessum pistli - icesave-málið er náttúrulega klassík en það eru allir orðnir leiðir á því. Kata okkar Kókó (litla brúna hórumamman) gæti kannski verið vinsæl (hún var náttúrlega svaka vinsæl, þessvegna er hún í þessum bobba) en það er ekki víst að hún nái neinum á skrið núna meðan hún situr í gæsluvarðhaldi. Tja... HEY já Þórhallur okkar hann er bara að hætta á Rúv - þvílíkur missir af þessum mannlega Ken! Ég er ekki viss um að ég muni nokkru sinni horfa aftur á Kastljós (ég hef að vísu aldrei horft á heilan þátt) fyrst hann er farinn. Hvað verður það næst? Ég sá á einhverjum fréttavefnum áðan að það eru miklar uppsagnir í vændum hjá Rúv - kannski verður Jóhanna Vigdís bara að láta eldúsið duga, fær ekkert að lesa fréttir... og hugsanlega verður ekkert ,,klukkan er sex, Jón Tórdarson les fréttir" og það er reyndar komið á hreint að Spánarspjallarinn Kristinn R. Ólafsson hverfur af dagskránni fyrr en síðar. Ef þeir hætta með morgunleikfimina og óskastundina þá er ekki lengur til neitt Ríkisútvarp lengur fyrir mér.


SVEI

En það er nú svo. Heimlis og einkalífið er heldur jákvæðara en horfurnar í dagskrá Rúv. Þorrablót annað kvöld í Biskupstungum og stefnt á margt. Éta mikið af þorramat, drekka mikið af brennivíni (allar sortir vel þegnar - best í bland), hlæja sig máttlausan yfir skemmtiatriðum, dansa eins og vindurinn, koma Helgu á séns og vera frammúrskarandi fögur (eins og alltaf). Ég geri mér grein fyrir að ekki eru öll þessi markmið raunhæf - en það er allt í lagi svo framarlega sem það verður gaman.

Eins og glöggir lesendur og aðrir velunnarar hafa kannski áttað sig á verður Mads ástmaður minn ekki á Þorrablóti. Hann er, að því er virðist, frekar skemmtanafælinn maður og sækir því ekki í svona samkomur. Blessunarlega vegur hin skemmtanafíkna sambýliskona okkar, Helga, upp á móti heimóttaskapnum í kærastanum og veitir félagsskap á hverskonar skemmtunum og skralli. Heimóttaskapurinn kemur auk þess að góðum notum hvað varðar pössun á hundum og öðrum búfénaði.

Hann er nú dáldið sætur þó hann vilji ekki fara að heiman

Jæja er þetta ekki gott í bili.

orð dagsins; böllhökt
orðið þýðir; dund, gauf
dæmi; Stúlkan böllhökti við prjónaskap. Óttalegt böllhökt var á unga manninum við verkin.

14 janúar 2010

Nýtt ár

Góðan daginn og gleðilegt nýtt ár

Hvað finnst ykkur um Icesave-málið og synjun forsetans? Persónulega er ég orðin dáldið leið á þessu öllu saman og, ljótt að segja það, er ég næstum þakklát fyrir hamfarirnar á Haítí - þær krydda fréttirnar allavega aðeins. Svo maður haldi nú afram í þjóðfélagsumræðunni þá eru helstu hornsteinar íslenskrar menningar komnir á dagskrá útvarps og sjónvarps, nefnilega ,,Gettu betur" og júróvisjón. Gettu betur sleppur nú en þetta júróvisjón er nú dáldið leiðnlegt. Hver ákveður eiginlega hvað lög eiga að fá að vera í þessum forkeppnum? og hver ákvað að það ættu að vera svona ógeðlsega mörg lög? og hvers vegna í ósköpunum eru mörg þeirra svona óskaplega leiðinleg og sí og æ spiluð í útvarpinu???? Ég er ekki hrifin af þessu en trúlega eru júróvisjónáhugamenn himinlifandi. Já en talandi um hornsteina menningar - ,,Útsvar" ætli þetta sé ekki örugglega síðasta serían af því? Ég viðurkenni reyndar að ég festist oft yfir því en ég fæ alltaf kjánahroll við að horfa á það.
Skruppum í gönguferð á annan í nýári. Hér má sjá Borgarfjarðarbrúna ef vel er að gáð

En nóg af tuði, kíkjum á æsilegt og spennandi heimilslíf mitt. Mads er veikur núna, situr í sófanum, hóstar og horfir á danska ríkissjónvarpið. Hundarnir eru blessunarlega sofandi núna en þeir stóðu að sameiginlegri tilraun til að rústa geðheilsu minni í gær - þau voru óþolandi, aldrei kyrr, vældu og vesenuðust, báðu um að fara út en vildu svo strax koma inn aftur og þar fram eftir götunum. Þrátt fyrir þetta virðist ég ver nokkuð heilleg á geðsmunum í dag.
Kennslan er hafin á ný eftir jólafríið. Er mestmegnis að kenna bændadeild 1 þessa önnina. Er í ferli að læra þekkja þau núna - var reyndar búin að koma inn í hausinn á mér slatta af nöfunum en þar sem þau eru alveg 24 þá vantar enn svolítið uppá.
Svona lítur sambýliskona mín oft út eftir vinnudaginn - krúttlegt ekki satt?

Ég er ekki frá því að skammdegið sé aðeins að minnka (enda á það að vera að því) það var allavega ekki alveg kolsvartamyrkur í gærmorgun klukkan korter yfir 10. Svo sést sólin næstum því hérna á Hvanneyri núna sem er náttúrulega óyggjandi merki um rénun skammdegis.

Jájá jæja. Framundan er æsispennandi prófsýning í nautgriparækt 1. og svo er Þorrinn náttúrulega á næstu grösum með blót, blóðmör og brennivín- Jess!

orð dagsins; saktmóðigur
orðið þýðir; hógvær
dæmi; Helga var saktmóðig varðandi gang ritgerðarinnar.