Hér má lesa rugl eftir mig

31 desember 2009

Síðasti sjéns...

...til að standa við áramótaheitið 2009

Jæja 31. desember mættur og enn ekki allt farið til fjandans á Íslandi. Kannski að árið 2010 verði þess heiðurs aðnjótandi að verða; ,,árið sem allt fór virkilega til fjandans á Íslandi" - þó segja kannski sumir að það ár sé þegar liðið, hafi verið árið 2008.

En tökum upp léttara hjal. Jólin eru enn ekki búin þó hátindur þeirra sé vissulega liðinn. Allt fór jólastandið ágætlega fram hjá okkur Mads. Maturinn var sjúklega góður, innihald pakkana frábærlega flott og veðrið með ágætasta móti.
Mads var að vinna núna fram til 27 og gerði ég mér það til dundurs að skreppa með honum í fjósiða - bara svona til að gera eitthvað. Annars hefur tíminn að mestu farið í að gera fátt og lítið, listsköpun, gögnguferðir, bíltúra og svo hefur búskapnum (hænum, kanínum, öndum, hundum og Helgu þegar hún er heima) verið sinnt.

Það bar til (loksins-loksins) um þessar mundir að bláberjavínið varð tilbúið til átöppunar. Vínið er hreint ekki alslæmt og má jafnvel ætla að það verði hæft til drykkjar einhverntíma. Þá er bara að bíða þess að krækiberjavínið gerjist til fulls og þá ætti berjavínsárgangur ´09 í brugghúsinu að vera tilbúinn.

Ég ætla til tilbreytingar ekki að setja myndir hér inn af þessum heimsviðburði (jólunum hjá mér og fleiru) heldur á myndasíðuna - tengill hér til hliðar.

Nú svo er náttúrulega gamlárskvöld í uppsiglingu og er stefnan að þessu sinni sett á að éta ótæpilega af villibráð og svínahamborgarhrygg ásamt meðlæti. Sennilega verður svo horft á annaála, áramótaskaup og að sjálfsögðu tappadansinn ómissandi.

Orð dagsins; dröslur (no, kvk)
Orðið þýðir; gamlar fataslitrur, bókaskræður, eitthvað fánýtt.
Dæmi; upp úr jólapökkunum kom ógrynni af dröslum.

22 desember 2009

Bráðum koma...

Góðan daginn

Þetta er allt að bresta á... það er svo sem bara fínt, það hefur allavega rekið mann áfram við nokkuð sem þarf að gera öðru hverju - þrífa. Skita hvað það er nú leiðinlegt verk. En allavega, í gær höfðum við Mads okkur í það og tókst bærilega til.
Myndir
Allt á rúi og stúi, Mads hálfur inni í elhússkáp - þar sem krukka með einhverju jukki hafði lekið

Heimilið komið í þokkalegt horf, búið að skreyta jólatréð og hvaðeina

Svo var jólaföndur - það er sko ekkert grín

Ég reyndi að sýna þolinmæði og festu við föndrið

Mads er kominn með jólaklippinguna og fléttuð jólahjörtu

En aðeins frá búrekstrardeild MSJ-Hvanneyri
Mads fór í bæinn á laugardaginn meðan við Helga skelltum okkur í jólagjafaleiðangur á suðurland. Allt í lagi með það en á sunnudaginn þegar ég kíkti með Jörgensen í pútnahúsið hafði þar bæst í hópinn - 3 feldkanínur. Þær hafa fengið nöfn heimilsmanna, Helga, Mæja og Mads og eru með rosa fínan og mjúkan feld. Núna þarf ég því að fara kynna mér verkun kanínuskinna til að geta svo með köldu blóði slátrað og fláð litlu kanínuungana og gert eitthvað fallegt úr skinnum þeirra meðan ég treð í mig kanínusteik.
Myndir
Endurnar - held að þær heiti ekki neitt ennþá

Hluti af hænsnunum, haninn Dóri er fremstur á myndinni

Feldkanínan Mæja

Mads gengur um búrekstarbyggingar sínar

Jájá svona gengur það. Annars er nú lítið að frétta það gerist að sjálfsögðu aldrei neitt bara Icesave og Mikkelsen úrsmiðir og svona eitthvað skítti. Já annars kíkti ég aðeins á heimaslóðir um helgina, kíkti á búfénaðinn og fjölskylduna.
Myndir
Þetta er smálambið mitt hún Klæba

Hér eru kynbótahrútarnir Botni og Náttfari, þeir eru báðir spakir
Þrefalt G, Geysir, Gandur og Gammur. Dinni og Krulli á bakvið
Króna og Pjakkur

Orð dagsins; Drjóla (so.)
Orðið þýðir; fara hægt, dunda eða (um hross) fara allgreitt
Dæmi; Ég drjólaði í útsýnisbíltúr. Heimilsfólkið drjólaði við jólaföndur. Dinni drjólaði heimleiðis.

17 desember 2009

Ár og dagar líða...

Góðan dag

Enn líður á desember - undarlegt, hvern hefði grunað að það myndi gerast?

Jólundirbúningur hefur aðeins gert vart við sig á heimilinu, fór til að mynda í hina ljótu Reykjavík á dögunum. Tilgangur ferðarinnar var að vísu ekki ,,jólaferð" upphaflega heldur tannlæknisferð - hafði nefnilega ekki farið til tannlæknis í einhver 4 ár - en vegna tímasetningarinnar (11. des.) þótti kjörið að nota ferðina í jólavesenið líka.
Ferðin var ágæt, tók Helgu að sjálfsögðu með enda förum við mun oftar saman í leiðangra en við Mads. Byrjaði á því að skila Helgu á Keldnaholt en fór sjálf í kaffi til Völu vinkonu - sem er ákveðinn árangur því ég hef margoft ætlað að heimsækja hana en ekki tekist fyrr en nú.
Svo kom að tannlækninum en hann er sérlega óheppilega staðsettur fyrir sveitalubba - á Rauðarárstíg - ótrúlega vel gekk að komast þangað. Tannlæknaferðin gekk eins og í sögu engar holur og veskið ekki galtómt að heimsókn lokinni.
Síðan tók við einn staður af öðrum, Kringlan, RL-búðin, Elko, Garðabær og Hafnafjörður og ég veit ekki hvað og hvað og heim vorum við komnar 13 tímum síðar eða svo klukkan 22:30.

En fleira hefur svo verið dundað, bakaði flatkökur um daginn og svo undum við Birta okkur í laufabrauðsgerð í gær - með frábærum árangri eins og við var að búast. Vegna kreppunnar hef ég svo verið að föndra jólagjafir eins og maður gerði í gamla daga og er, eins og þá, þokkalega ánægð með árangurinn og býst við miklum og fallegum þökkum fyrir. Já! og svo voru skrifuð jólakort, sögulega mörg, meira að segja fleiri en 10, hugsa sér.
Laufabrauðið okkar Birtu er eins og sést ekki eins og hjá fínum Þingeyskum húsmæðrum

Síðan er kennslan þessa haustönn búin, var með próf á mánudaginn sem allir nemendurnir náðu - sem var eins gott fyrir þau því það er afar leiðinlegt að gera endurtektarpróf og sitja yfir þeim. Annars eru allir að verða búnir í prófum, ég held að flestir fari heim í dag og þá hefst líklega þessi skemmtilega Hvanneyrar-jólastemming; ekki köttur á kreiki og ekki rassgat að gera... þannig var það allavega í fyrra.

Annars eru það helstu fréttir og raunar helsti vandi þessara síðustu daga að hænurnar hans Mads eru farnar að verpa eins og hríðskotabyssur. Eggin hrúgast upp og ég hef hvorki hugmyndaflug né nennu til að baka úr þeim öllu auk þess sem það er ekki sérlega hollt að troða í sig sætabrauði alla daga.

En já, þá er þetta gott í bili.

Orð dagsins er; þökta (so.)
Orðið þýðir; blakta daflega, vera um það bil að slokkna, smá lögg.
Dæmi; þvotturinn þökti á snúrunni. Það þökti á gamla sjónvarpinu í litla stund áður en það dó endanlega. Það þöktir á flöskunni.

05 desember 2009

Ungir folar og fleira gott

sæl á ný

Langaði eiginlega bara að smella hérna inn einu litlu myndbandi af hrossum. Við ofurskutlurnar (ég, Birta og Helga) skruppum nefnilega á Snæfellsnesið á ungfolasýningu í gær. Þar var alveg slatti af efnilegum folum og mér að óvörum, Sparisjóður frá Hallkelsstaðahlíð sem ég hélt undir í sumar (því ég vann tollinn í happdrætti) en hafði ekki séð áður.



Annars hefur fátt gerst. Kennslan er búin í bili, ábara eftir að fara yfir nokkur verkefni og klára að semja próf. Prófið verður svo 14. des svo ég sé fram á að hafa tíma til að skrifa jólakort og taka til og þannig leiðinda vesen.

Orð dagsins; bölti
Orðið þýðir; hjalli, barð, hóll, þúst.
Unnsteinn hnaut um bölta. Stóð þar bær á bölta nokkrum.