Hér má lesa rugl eftir mig

03 apríl 2010

Án titils

Gott kvöld góðir lesendur

Ég hef ákveðið að rita hér nokkur orð í tilefni þess að ýmislegt hefur skemmtilegt gerst og Mads er að horfa á Barnaby.

Tamningar eru í fullum gangi, Blesa - eða Ljóta-Blesa eins og eigandi hennar hefur yfirleitt kallað hana - er hress og var til að mynda sérstaklega þæg í dag. Pjakkur gamli er allur að koma til en það mátti svo sannarlega því hann var latari en unglingur við uppvask fyrst eftir að hann kom. Annars er það nú helst að frétta úr hestamennskunni að við Pjakkur brugðum okkur með fríðu föruneyti upp í Lundarreykjadal á Páskaleikana 2010. Páskaleikarnir eru frjálslegt en jafnframt háalvarlegt hestamannamót með ýmiskonar sprelli. Föruneyti okkar voru Eygló Óskarsdóttir frá Krossi og hennar frækni reiðskjóti en þær gerðu það einmitt gott á mótinu - unnu titilinn
,,efnilegasti knapinn".

Blesa hressa

Árni á Skarði tók tilþrifamikið stígvélaspark á leikunum

Eygló efnileg í upphafi leika

Mads er alltaf í hænubraskinu sínu - en hann eignaðist tvö hænsn einhverntíman í fyrrahaust. Ég kíkti svo út í hænsnakofa á dögunum og fannst eitthvað vera meira þar af fuglum en ég var vön. Ég innti Mads eftir því hvað það væru eiginlega orðnir margir fuglar þarna inni en það reyndust vera um 40 kvikindi en eru þá ótaldir óklaktir ungar andarinnar Silju.

Talandi um Silju þá heimsóttum við þá Sigurðardóttur um síðustu helgi. Hún og ástmögur hennar Þórður Svavarsson eru á fullu að gera upp gamalt hús á ættaróðali hans - Ölkeldu á Snæfellsnesi. Þegar okkur bar að garði var verið að smíða stiga milli hæða sem þótt sérlega spennandi því ekki hafði verið fært upp á efri hæðina um nokkurt skeið. Við tókum að sjálfsögðu útsýnisferð um alla kofa á bænum, þáðum kaffi og átum köku.

Helga kannaði hvort nýi stiginn væri nægilega traustur

Ég hef annars undanfarna daga verið gripin miklu bakstursæði, sem er í hæsta máta óvanalegt. Eins og ég sagði frá síðast voru gerðar kleinur hér á dögunum en síðan þá hafa bæst í hópinn nokkrir rúgbrauðshleifar og slatti af flatkökum. Þetta er náttúrulega stórgott en þess getur verið langt að bíða að annar eins hamur renni á mig. En kannski er þetta nú ekki alveg yfirstaðið svo mögulega verður slett í kaniltertu fyrir ástmann minn á morgun (þegar hann sá þetta skrifað fékk hann vægt oföndunarkast og meig ofurlítið á sig af spenningi).

Rúgbrauð

Flatkökur

Stoppaðir sokkar - ekki uppáhalds verkið en ágætt þegar það er norðangarri

Núna er það bara páskahátíðin sem er að detta inn. Sökum trúleysis er ég nú ekki spennt fyrir boðskapnum en að sjálfsögðu mjög þakklát fyrir frídagana. Talandi um trú þá fór ég að velta nokkru fyrir mér í dag. Hvar eru þeir sem ekki eru í Þjóðkirkjunni grafnir? Varla í kirkjugarði - það hlýtur að stríða gegn ,,trú" þeirra? Má grafa fólk hvar sem er? - varla, fyrst það má ekki einu sinni grafa dauða rollu, strangt til tekið.... Eru þeir í grafreitum? - grafreitir eru nú ekki á hverju strái. Veit þetta einhver? Ekki ég allavega. Ég fór svona að spá í þessu því ég er nú, eins og áður kom fram, tiltölulega trúlaus og kem líklega til að drepast einhvern tíma.

Orð dagsins; Petti
Orðið þýðir; lítið svæði, eitthvað lítið s.s. bandspotti, stubbur/smástykki af einhverju
Dæmi; Túnin hans Dodda eru engin petti. Mads fékk sér svolítið flatkökupetti með sméri.

Myndir frá Ölkeldu og af páskaleikum á myndasíðu