Enn á ný hittumst við
Sælir dyggu lesendur (ef þið eruð þá til).
Nú er netsamband orðið raunveruleiki þar sem ég er nú mætt til náms á Hvanneyri, þriðja haustið.
Það er kannski við hæfi að segja svona upp og ofan af sumrinu í tilefni þess að það er að renna sitt skeið og ég hef ekki deilt staf með umheiminum síðan í maí.
Sumarið var ágætt. Við Mads unnum saman við smíðar á Flúðum í Hrunamannahreppi þar sem okkar helsta verkefni var að klambra saman um 300 fermetrum af sólpöllum fyrir einn ríkan karl og kerlingu hans. Öðru hverju komumst við þó í önnur verkefni s.s. að koma upp kofa í Borgarfirðinum, nánar tiltekið á Skeljabrekku.
Í byrjun júlí brugðum við okkur með góðu gengi í svolitla hestaferð inn í Fremstaver og var það ljómandi gaman fyrir utan allt rykið sem á vegi okkar varð.

Svo var fénu komið á fjall. Það voru nokkrir byrjunarörðugleikar en allt hafðist það þó að lokum.

í júlí vorum við aðallega að sóla okkur á sólpöllunum í vinnunni en undir lok mánaðarins fór Mads með mömmu, Sævari og bræðrum mínum til Borgundarhólms sem sérlegur túlkur og leiðsögumaður.

Ekki man ég eftir neinu fleiru sérlega markverðu sem átti sér stað nema kannski því að blessuð tíkin okkar í Arnarholti, Glirna, andaðaist á heimili sínu í lok júní - blessuð sé minning hennar. Í hennar stað er nú kominn hundur að nafni Mosi. Sá er ættaður úr Lundarreykjadal nánar tiltekið frá Hóli og Lundi. Hann er enn dálítið vitlaus en vonir standa til að úr honum rætist.
Nú er skólinn byrjaður. Heldur snemmt að mínu mati en allt verður víst að hefjast einhverntíma...
Gott í bili.
Orð dagsins er: Dosk
orðið þýðir: gauf, dund, slór, leti, hik eða deyfð.
Dæmi: Danir doska ekki við bjórdrykkju. Ragnhildur doskaði ekki við að ná í Daníel.