Athafnasemi
Nú er nokkuð liðið frá síðasta pistli og hefur nokkuð á mína daga drifið síðan síðast.
Skólinn fór af stað með rólegheitum og fög annarinnar hafa enn ekki komið mér á óvart með yfirdrifnum skemmtilegheitum. Lítið er að frétta nema þó það að vikan 14. til 21. janúar var afar annasöm og hyggst ég segja hér lítið eitt frá helstu viðburðum.
Þegar vikan hófst var ég önnum kafin við að prjóna gríðar mikla lopapeysu á hávaxnasta bekkjarfélaga minn Axel Kárason og var ég í því verki þann tíma sem ég hefði líklega verið í að tala við ástmann minn, en hann var ekki heima þessa vikuna.
Mánudag fór ég ásamt fögru fylgdarliði í Borgarnes til að versla ýmsar nauðsynjar á borð við bjór, skrúfur og efni í kjötsúpu.
Þriðjudag fór ég svo aftur í Borgarnes ásamt öðrum flokki fagurs fylgdarliðs og í þetta sinnið var versluð nauðsynjavara á borð við áfengi og afmælisgjöf en mér hafði verið boðið í afmæli á miðvikudeginum.
Miðvikudagurinn 17. janúar rann svo upp. Þegar líða tók að kveldi hélt ég í afmælisboð hjá Helgu Maríu en þetta kvöld fagnaði hún 23 afmælisdegi sínum með því að bjóða í kjötsúpu.
Fimmtudagskvöld var svo gleðskapur á Árgarði en íbúar neyttu þá þess áfengis sem keypt var fyrir dósapeninga. Sú gleði barst síðan um stund á Kollubar þar sem fótabúnaður minn vakti athygli – brún Viking gúmmístígvél, en svo var farið að nýju á Árgarð og drykkju haldið áfram.
Föstudagurinn var rólegur framanaf en svo þegar líða tók á daginn var hafinn undirbúningur fyrir herlegheit helgarinnar – ferð Hrútavinafélagsins Hreðjars í Skaftártungur. Ég hafði lofað að keyra þann eðla vagn Mözdu að Sandlæk í Gnúpverjahreppi á föstudeginum og hafa innanborðs Þorrablótsfara fjóra þau Birtu, Valþór, Helgu og Einar. Þetta gerði ég og tókst ferðin vonum framar og veit ég ekki betur en Þorrablótið hafi verið hin besta skemmtun.
Árla laugardagsmorguns reif ég mig á fætur og ók að Sandlæk til að hitta væntanlega bílfélaga í Hreðjarsferð (Helga Hauk, Guffu, Helgu og Birtu). Eftir staðgóðan morgunverð var liðinu og draslinu pakkað í Subaru-bifreið Helga Hauks og haldið af stað á Hvolló (Hvolsvöll) en þar hittist sá ágæti hópur sem í ferðina fór.




Guðfinna mundar myndavél og Óðinn rannsakar gjafagrindur í fjárhúsunum í Fagradal

Þegar öllu þessu var lokið snæddum við svo á Sandlæk og fengum örlitla leiðsögn um fjárstofn Helga Hauks. Síðan var sest upp í Mözdu og ekið á Hvanneyri.
Orð dagsins er úrinn
Úrinn þýðir; 1. Votur, rakur 2. Úrillur, skapstyggur
Dæmi: 1.Snorri var úrinn eftir hann féll í pollinn. 2. Sigríður er úrin í morgunsárið.