Gefin loforð
Ég held að ég hafi lofað einhverjum að blogga um atburði síðustu daga. Man samt ekki alveg hver það var en það er líklega aukaatriði.
Sem sagt. Á föstudaginn héldu þær Guðfinna og Svana upp á 25 ára afmælin sín á Kollubar. Við íbúarnir á Árgarði mættum saman og gáfum saman glæsilegar gjafir, bleika kórónu, bleika buddu með áletruninni ,,princess” og bleikt armband í stíl við alltsaman. Þarna var slatti af fólki bæði frá Hvanneyri og svo fólk sem afmælisbörnin buðu en það er frá einhverjum öðrum stöðum. Bjór var í boði fríkeypis framan af og var það gott. Ástmaður minn gerðist þreyttur er fór að síga í ellefu og fór þá heim en ég skemmti mér fram undir þrjú og slangraði svo heimleiðis.




Laugardagurinn var áfallalítill. Skroppið var á opinn dag á Hesti en þar var margt að skoða og ekki síst að safna. Það var nefnilega fullt af áhugaverðum bæklingum um allt milli himins og jarðar auk úrvals fallegra derhúfa og skriffæra merkta hinum ýmsu fyrirtækjum.

Kerlingarnar hérna á Árgarði, Sigga, Silja og Aldís, smelltu sér svo á ball á Venus á laugardagskvöldið ásamt Perlu og Boggu og gat ég ekki annað séð á þeim á sunnudag en að þær hefðu haft góða skemmtun.
Í gær og dag kom veðrið Hvanneyringum heldur betur á óvart... Það var hvorki rok né rigning! Og það sem meira var, það var sólskin og frostlaust – ótrúlegt.
Orð dagsins er: Dyrgja
Orðið þýðir: 1. dvergvaxin kona. 2. Digur, durgsleg kona.
Dæmi: Sumir menn eru kynósa af dyrgjum. Dyrgjur eru sjaldséðar í Borgarfirði.